Búðin grandskoðuð fyrir skósöluna

Flestir ætluðu að eiga skóna.
Flestir ætluðu að eiga skóna. mbl.is/Styrmir Kári

Örtröðin í Húrra við Hverfisgötu í dag var líklega ekki sú síðasta. Húrra er komin í hóp útvaldra verslana sem fá að selja takmarkaðar útgáfur frá Nike og Adidas. Á komandi ári er von á fimm sendingum af sambærilegum skóm og þeim sem voru til sölu í dag.

Líkt og fram hefur komið fóru svokallaðir Yeezy skór sem tónlistarmaðurinn Kanye West hannaði í samstarfi við Adidas í sölu í morgun. Nokkrir vongóðir viðskiptavinir tjölduðu í tvo daga fyrir utan Húrra til þess að tryggja sér par. Jón Davíð Davíðsson, annar eigandi Húrra, segir að um fjörtíu manns hafi verið í röðinni við opnun í dag. Einungis 21 skópar var hins vegar í boði.

Frétt mbl.is: Tjaldað í tvo daga fyrir skópar

Fleiri höfðu þó gert sér vonir um að eignast skóna en nokkrir gáfust upp eftir að hafa reiknað dæmið til enda. Fjörtíu manns í röð og helmingi færri skópör. 

Fjárfestingin getur hins vegar skilað sér fyrir þrautseiga þar sem skórnir kostuðu 35 þúsund krónur en hægt er að selja þá á 100 til 200 þúsund krónur á eBay. Svo verðmætir eru skórnir að viðskiptavinir fengu ekki að máta. Ástæðan er sú að verðgildið rýrnar töluvert við mátun.

Fengu borgað fyrir að bíða í röð

„Mér skildist að meirihlutinn ætlaði að eiga skóna og þá kannski geyma upp í skáp til þess að nota við fínni tilefni. Síðan voru aðrir sem ætluðu að selja þá og enn aðrir voru að fá borgað um 30 til 60 þúsund krónur fyrir að bíða í röðinni,“ segir Jón Davíð.

Það var strembið ferli fyrir verslunina að tryggja sér söluréttinn. „Við höfum verið að vinna að þessu í rúmt ár í samvinnu við umboðsaðilann á Íslandi,“ segir Jón Davíð. Fyrst þarf að kynna hugmyndafræði verslunarinnar fyrir Adidas, senda þeim lista yfir vörumerkin sem eru til sölu og senda myndir. Þá skoðuðu fulltrúar Adidas heimasíðu Húrra og mættu síðan á staðinn og skoðuðu búðina.

„Þetta eru handvaldar búðir sem komast á þennan lista og það er mikill heiður að komast að,“ segir Jón Davíð og bætir við að einungis flottustu skóbúðir heims fái að selja þessar línur.

Næsta sending í maí?

Húrra er núna komin í svokallaðan statement-account hjá Adidas en það þýðir að verslunin hefur aðgang að fleiri takmörkuðum útgáfum fyrirtækisins. Þar á meðal eru Jeezy skórnir, sem voru til sölu í dag og aðrir eftirsóttir skór sem fyrirtækið Palace vann í samtarfi við Adidas. Auk þess er búðin einnig komin á lista hjá Nike og hefur fengið leyfi til þess að selja Jordan-skó, sem Jón Davíð að seljist alltaf samstundis upp.

Aðspurður hvort raðir við Húrra verði þá algeng sjón segir Jón Davíð að eftirspurnin verði óneitanlega mikil en telur þó líklegt að Jeezy-skórnir verði vinsælastir. Á þessu ári koma fimm aðrar sendingar af skónum til landsins og Jón Davíð segir að verslunin verði látin vita með tveggja til þriggja vikna fyrirvara um útgáfudag, lit og týpu. Sögusagnir eru þó um að næsta útgáfa verði í maí.

Hann segist þó vera að hugsa um að breyta fyrirkomulaginu, sleppa röðinni og hafa þess í stað eins konar happadrætti. Þá getur fólk sótt um að fá að kaupa par og dregið verður úr hópnum. „Þetta er vandmeðfarið en röðin er svolítið erfið þar sem sumir eiga fjölskyldu, eru úti á landi eða geta ekki fengið leyfi í vinnunni til að bíða í röð í tvö til þrjá daga,“ segir hann.

Kvenfatabúð í haust

Eigendur Húrra, þeir Jón Davíð og Sindri Jensson, ætla að opna kvenfatabúð í haust. Hún verður í miðbænum en húsnæðið hefur ekki verið neglt niður. „Við höfum fundið fyrir mikilli eftirspurn. Það eru margar stelpur sem versla hjá okkur allt frá strigaskóm eða sólgleraugum og yfir í karlaföt,“ segir Jón Davíð.

Í grunninn verða sömu vörumerki í versluninni en nokkur til viðbótar munu þó bætast í úrvalið.

Jón Davíð Davíðsson, annar eigenda Húrra Reykjavíkur, til hægri, ásamt …
Jón Davíð Davíðsson, annar eigenda Húrra Reykjavíkur, til hægri, ásamt Baldri Kristjánssyni ljósmyndara. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
Næst verður mögulega haldið happadrætti um skóna.
Næst verður mögulega haldið happadrætti um skóna. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK