Höfnuðu hærra tilboði í Fáfni

Frá sjó­setn­ingu Polarsyssel en það er dýrasta skip í eigu …
Frá sjó­setn­ingu Polarsyssel en það er dýrasta skip í eigu Íslendinga.

Meirihluti stjórnar Fáfnis Offshore samþykkti í gær að fara í skuldabréfaútgáfu sem metur félagið á lægra verði en stofnandi og fyrrum forstjóri þess bauð í félagið fyrir skömmu. 

Steingrímur Erlingsson stofnandi og fyrrum forstjóri Fáfnis Offshore, bauð í lok janúar átta milljónir norskra króna, eða 119,8 milljónir króna, í rúman þrjátíu prósent hlut fjárfestingafélagsins Akurs í Fáfni Offshore og skuldbatt sig jafnframt til þess að kaupa aðra hluti á sama gengi. 

Þetta kemur fram í kauptilboði Fáfnis Holding ehf., félags Steingríms, sem mbl hefur undir höndum en Prospect Financials í Kanada staðfesti fjármögnunina að baki tilboðinu.

Samkvæmt því var Fáfnir Offshore í heildina metið á 26,5 milljónir norskra króna, eða tæpar 397 milljónir íslenskra króna. Tilboðinu var ekki tekið. Stein­grími var sagt upp störf­um í des­em­ber sl. en hann á ennþá 21 pró­sent hlut í félaginu.

Meirihluti hluthafa Fáfnis Offshore samþykkti hins vegar í gær að fara í skuldabréfaútgáfu sem getur leitt til þess að kaupandi skuldabréfanna eignist allt að sextíu prósent hlut í félaginu á um 12,75 milljónir norskra króna, eða 190,9 milljónir íslenskra króna. Samkvæmt því er félagið í heildina metið á 21,25 milljónir norskra króna, eða 317 milljónir króna, og þar með minna en tilboð Steingríms hljóðaði upp á.

Þar að auki ætlar stjórn félagsins að greiða tuttugu prósent ársvexti af skuldabréfinu.

Stærsti lánveitandi Fáfnis Offshore er norska lánafyrirtækið Eksportkreditt. Samkvæmt heimildum mbl uppfyllir félagið nú ekki skilyrði lánasamninga um lágmarksstöðu lausafjár og gætu lán félagsins þar með verið gjaldfelld á hvaða tíma sem er og í kjölfarið leitt til gjaldþrots. 

Lífeyrissjóðir eiga mikið undir

Íslenskir lífeyrissjóðir og tveir bankar í ríkiseigu, Landsbankinn og Íslandsbanki, eiga óbeint stóran hlut í félaginu og hafa lagt þeim til milljarða króna í gegnum framtakssjóðina Akur og Horn II.

Í lok ársins 2014 keypti Akur, sem er framtakssjóður í rekstri Íslandssjóða, sjóðsstýringarfyrirtækis Íslandsbanka, fyrrnefndan þrjátíu prósent hlut í Fáfni fyrir 1.260 milljónir króna. Helstu eigendur sjóðsins eru lífeyrissjóðir, Íslandsbanki og VÍS.

Þá keypti Horn II, framtakssjóður í rekstri Landsbréfa, sjóðsstýringarfyrirtækis Landsbankans, 33 prósent hlut í Fáfni í mars sama ár. Helstu fjárfestarnir í Horni II eru íslenskir lífeyrissjóðir. 

Tapaðir fjármunir?

Til­gang­ur­inn með skuldabréfaútgáfunni er að út­vega fé­lag­inu fé til að eiga fyr­ir greiðslu til norsku skipa­smíðastöðvar­inn­ar Havy­ard vegna Fáfn­is Vik­ing, þjón­ustu­skips, sem Havy­ard er með í smíðum fyr­ir Fáfni en samkvæmt heimildum mbl er Fáfnir þegar komið í vanskil með greiðslur til fyrirtækisins. Fyr­ir á fé­lagið þjón­ustu­skipið Pol­ar­syssel, sem hef­ur verið í þjón­ustu fyr­ir sýslu­mann­inn á Sval­b­arða í sex mánuði á ári. 

Líkt og áður segir nema vextirnir tuttugu prósentum og má leiða að því líkur að háir vextir komi til vegna áhættusamrar fjárfestingar.

Í viðtali í Kastljósi í vikunni sagði Steingrímur að hluti þeirra fjármuna sem lagðir hefðu verið í Fáfni væru tapaðir. Fyrirtækið væri búið að borga á annan milljarð króna inn á skip væri verið að smíða til þess að fara inn á þjónustumarkað sem er í mjög slæmu ástandi.

Ekki væri fyrirséð að það myndi lagast á næstu árum en með því vísaði Steingrímur til þjónustumarkaðarins við olíuiðnaðinn sem hefur dregist saman í kjölfar lækkunar á heimsmarkaðsverði á olíu.

Ekki náðist í Jóhannes Hauksson, framkvæmdastjóra Akurs fjárfestinga og stjórnarmann Fáfnis Offshore, við vinnslu fréttarinnar.

Steingrímur Erlingsson er stofnandi Fáfnis Offshore.
Steingrímur Erlingsson er stofnandi Fáfnis Offshore. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Lífeyrissjóðirnir eiga mikið undir.
Lífeyrissjóðirnir eiga mikið undir. mbl.is/Þorkell Þorkelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK