Með bolmagn til að halda áfram

Polarsyssel er dýrasta skip í eigu Íslendinga.
Polarsyssel er dýrasta skip í eigu Íslendinga.

„Við erum sjóður með langan líftíma og erum að stýra fjárfestingu okkar með virkum hætti. Það á enginn að vera undrandi á því að við skulum gæta hagsmuna okkar þegar við þurfum að gera það,“ segir Jóhannes Hauksson, framkvæmdastjóri Akurs fjárfestingasjóðs.

Líkt og mbl greindi frá bauð Stein­grím­ur Erl­ings­son, stofn­andi og fyrr­verandi for­stjóri Fáfn­is Offs­hore, í lok janú­ar átta millj­ón­ir norskra króna, eða 119,8 millj­ón­ir króna, í rúm­an þrjá­tíu pró­sent hlut fjár­fest­inga­fé­lags­ins Ak­urs í Fáfni Offs­hore og skuld­batt sig jafn­framt til þess að kaupa aðra hluti á sama gengi. 

Á hluthafafundi félagsins í gær var hins vegar samþykkt að fara í skulda­bréfa­út­gáfu sem get­ur leitt til þess að kaup­endur skulda­bréf­anna eign­ist allt að sex­tíu pró­sent hlut í fé­lag­inu á um 12,75 millj­ón­ir norskra króna, eða 190,9 millj­ón­ir ís­lenskra króna. Sam­kvæmt því er fé­lagið í heild­ina metið á 21,25 millj­ón­ir norskra króna, eða 317 millj­ón­ir króna, og þar með minna en til­boð Stein­gríms hljóðaði upp á.

Frétt mbl.is: Höfnuðu hærra tilboði í Fáfni

Jóhannes segir tilganginn vera að koma með peninga að félaginu í því skyni að tryggja að smíðaverkefni Fáfnis Offshore, þ.e. Fáfnir Viking, verði fært í annað og sérstakt félag og frá hinu skipi félagsins, þ.e. Pol­ar­syssel.

Aðspurður hvers vegna tilboði Steingríms hafi verið hafnað segist Jóhannes hafa talið að það væri ekki fullfjármagnað. „Við ákváðum bara að hafna fjárfestingunni og ég ætla ekkert að tjá mig meira um það. Mér fannst tilboðið ekki trúverðugt og ekki fullfjármagnað. En þar að auki leist okkur betur á að klára samninginn við sýslumanninn og halda áfram í þeim verkefnum sem við vorum í. Enda höfum við bolmagn til að gera það,“ segir Jóhannes.

Lengdur samningur á Svalbarða

Þjón­ustu­skipið Pol­ar­syssel, hef­ur verið í þjón­ustu fyr­ir sýslu­mann­inn á Sval­b­arða í sex mánuði á ári en að sögn Jóhannesar var í gær samþykkt að lengja þann tíma upp í níu mánuði á ári. Verið er að klára samninga um það segir Jóhannes.

Aðspurður um áhættu og lélegar aðstæður á olíumarkaðnum í kjölfar lækkandi heimsmarkaðsverðs segir Jóhannes að félagið hafi vissulega orðið fyrir barðinu á því. „Polarsyssel var ætlað að vinna í sex mánuði á þessum markaði á móti samningnum við sýslumanninn. Nú höfum við lengt þann tíma upp í níu mánuði og höfum þar með ekki áhyggjur af því skipi,“ segir hann.

Hvað hitt skipið varðar segir Jóhannes að félagið sé að vinna að leið sem Steingrímur stakk upp á í upphafi. Að skoða möguleikann á því að breyta skipinu í þjónustuskip fyrir vindmillur. 

Skuldabréfin fyrir núverandi hluthafa

Að sögn Jóhannesar verða útgefin skuldabréf einungis í boði fyrir núverandi hluthafa og ekki er því ætlunin að fá fleiri að rekstrinum. „Þetta eru bara þeir sem hafa verið að vinna að framgangi félagsins,“ segir hann.

Líkt og fram hefur komið á Steingrímur fimmtungshlut í Fáfni Offshore en honum var sagt upp sem forstjóra fyrirtækisins á síðasta ári. Spurður um uppsögnina segist Jóhannes ekki ætla að fjalla um málið. „Hann var ekki sammála þeirri leið sem meirihluti stjórnar vildi fara og ég ætla ekki að tjá mig neitt meira um það.“

Akur er fram­taks­sjóður í rekstri Íslands­sjóða, sjóðsstýr­ing­ar­fyr­ir­tæk­is Íslands­banka, og keypti 30 prósent hlut í Fáfni á 1.260 milljónir króna árið 2014. Helstu eig­end­ur sjóðsins eru líf­eyr­is­sjóðir, Íslands­banki og VÍS.

Þá á framtakssjóðurinn Horn II, sem er í rekstri Landsbréfa, einnig stóran hlut í Fáfni. Helstu fjár­fest­arn­ir í Horni II eru ís­lensk­ir líf­eyr­is­sjóðir. 

Samningurinn við sýslumanninn á Svalbarða verður lengdur í níu mánuði.
Samningurinn við sýslumanninn á Svalbarða verður lengdur í níu mánuði. AFP
Steingrímur Erlingsson er stofnandi Fáfnis.
Steingrímur Erlingsson er stofnandi Fáfnis. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK