Systur taka við rekstri Litlu kaffistofunnar

Systurnar Ásdís og Hallveig Höskuldsdætur.
Systurnar Ásdís og Hallveig Höskuldsdætur. Árni Sæberg

Um mánaðarmótin taka systurnar Ásdís og Hallveig Höskuldsdætur við rekstri Litlu kaffistofunnar á Sandskeiði af Stefáni Þormari Guðmundssyni sem hefur rekið staðinn í tæplega aldarfjórðung eða frá árinu 1992. Voru systurnar valdar úr hópi tæplega 100 umsækjenda, en það er Olís sem á staðinn og samdi um reksturinn við þær til næstu fimm ára.

Áfram með súpurnar og smurða brauðið

„Við ætlum ekki að breyta miklu, heldur halda okkur við súpurnar og smurða brauðið,“ segir Ásdís í samtali við mbl.is. Hún segir rekstur sem þennan hafa verið hugarefni þeirra systra í nokkurn tíma, en áður hafa þær komið að rekstri fjölda slíkra staða.

Litla kaffistofan hefur verið rómaður áfangastaður ferðalanga í rúmlega hálfa öld og Ásdís segir að þær sé meðvitaðar um að það sé erfitt að fara í þessa skó. Það var Ólína Sigvaldadóttir sem setti upp veitingastaðinn árið 1960, en Stefán sem rekur staðinn núna tók við rekstrinum árið 1992.

Áhersla á heimilislegt og hlýlegt yfirbragð

Á þeim 24 árum sem hann og fjölskylda hans hafa stýrt Litlu kaffistofunni hefur að öðru ólöstuðu mikið og veglegt fótboltasafn sett hvað mestan svip á staðinn. Hvort sem um er að ræða fótboltaúrklippur úr blöðum, fána félagsliða víða um heim eða myndir af helsta fótboltafólki þjóðarinnar, þá má gera ráð fyrir því að hægt sé að finna það á veggjum staðarins.

Ásdís segir að safnið muni fara með Stefáni, en að öðru leyti verði haldið í heimilislegt og hlýlegt yfirbragð. Segir Ásdís að lögð verði áhersla á að heiðra sögu þeirra sem voru á undan þeim. Áfram verði boðið upp á súpur, meðal annars alltaf kjötsúpu og þá verði smurða brauðið og bakkelsi áfram á boðstólum. Segir hún að þær hugi einnig að því að bæta við morgunmat, sækja um vínveitingaleyfi og bæta við kaffiþjónustu frá Kaffitári, þó áfram verði gamla góða kaffið í boði. „Við ætlum ekki að rugga bátnum of mikið,“ segir Ásdís og hlær.

Mikil reynsla úr veitingarekstri við þjóðveginn

Varðandi að halda í heimilislega stemningu segir Ásdís að þær séu báðar komnar yfir fimmtugt og eigi  börn sem þær muni örugglega leita til varðandi starfsandann á staðnum. Þá langi þær einnig til að vinna með konum á svipuðum aldri og þær, en Ásdís segir að oft geti konum þegar þær komist á þennan aldur reynst erfitt að fá vinnu.

Ásdís hefur áður verið í hótel- og veitingageiranum bæði hjá Edduhótelum og í Staðarskála auk þess sem hún var rekstrarstjóri Domnios í fjögur ár. Í dag er hún í eigin rekstri með heildsölu. Hallveig hefur einnig mikla reynslu úr þessum geira, en hún og fyrrverandi eiginmaður hennar hófu störf hjá tengdaforeldrum hennar, Pétri Geirssyni og Hlíf Steinsdóttur, sem áttu bæði Botnsskála og Hreðavatnsskála. Árið 1991 tóku þau við rekstri Hreðavatnsskála í nokkur ár og í kjölfarið af þeim rekstri starfaði Hallvegi bæði í Brú og í Staðarskála. Segir Ásdís að þær séu því að nokkru leyti uppaldar í þessum rekstri.

Aðspurð hvort að það sé ekki fælandi hugsun að reka veitingasölu á stað sem er þekktur fyrir veðurofsa á veturna og að vera skjól fyrir veðurteppta ferðalanga segir Ásdís það síður en svo ýta þeim í burtu. Segir hún að þær séu aldar upp úti á landi þar sem þær hafi snemma kynnst því að þurfa að berjast yfir heiðar og standa slíku veseni.

Litla kaffistofan hefur verið vinsæll áningastaður ferðafólks síðan 1960.
Litla kaffistofan hefur verið vinsæll áningastaður ferðafólks síðan 1960. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK