Geirmundur neitaði sök í SpKef máli

Geirmundur Kristinsson, fyrrum sparisjóðsstjóri SpKef.
Geirmundur Kristinsson, fyrrum sparisjóðsstjóri SpKef.

Þingfesting í máli héraðssaksóknara gegn Geirmundi Kristinssyni, fyrrverandi sparisjóðsstjóra í Keflavík, fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Geirmundur neitað sök í málinu. Frestur til að skila greinargerð í málinu var gefinn til 18. maí.

Geirmundur er ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa mis­notað aðstöðu sína hjá spari­sjóðnum með lán­veit­ing­um til einka­hluta­fé­laga. Fjárhæðirnar í ákærunni nema tæpum átta hundruð milljónum króna. Brotin geta varðað allt að sex ára fangelsi.

Í ákæru segir að Geirmundur hafi stefnt fé sparisjóðsins í verulega hættu þegar hann fór út fyrir heimildir til lánveitinga þegar hann fór út fyrir heimildir til lánveitinga með því að veita einkahlutafélaginu Duggi 100 milljóna króna yfirdráttarlán þann 16. júní 2008. Afstaða lánanefndar lá ekki fyrir og áhættu- og greiðslumat fór ekki fram. Þá var endurgreiðslan ekki tryggð með nokkrum hætti.

Gekk upp í skuld Suðurnesjamanna og var afskrifað

Tveimur dögum síðar var fjárhæðinni ráðstafað inn á reikning Duggs ehf. og sama dag tók Icebank hf. handveð í þessum reikningi fyrir skuldbindingum Suðurnesjamanna ehf. gagnvart Icebank. Í september sama ár var síðan gengið að allri innistæðunni til greiðslu á skuld Suðurnesjamanna við Icebank.

Icebank hafði lánað Suðurnesjamönnum miklar fjárhæðir til kaupa á hlut í HS Orku. Suðurnesjamenn voru í 47% eigu Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins, og var hann jafnframt framkvæmdastjóri félagsins.

Landsbankinn hf. afskrifaði síðan kröfuna í júlí 2015 vegna gjaldþrots Duggs ehf. Ekkert fékkst upp í kröfur í kjölfar gjaldþrotsins. Suðurnesjamenn urðu gjaldþrota árið 2009.

Framselt til sonar Geirmundar

Þá varðar málið einnig umboðssvik þar sem Geirmundur er talinn hafa misnotað aðstöðu sína, sem stjórnarformaður dótturfélags sparisjóðsins, einkahlutafélagsins Víkna, og valdið félaginu verulegri fjártjónshættu, þegar hann framseldi stofnbréf í Sparisjóði Keflavíkur að verðmæti tæplega 700 milljón króna, frá Víkum til einkahlutafélagsins Fossvogshyls í lok árs 2007 án þess að nokkuð endurgjald kæmi fyrir.

Enginn lánasamningur var gerður og ekki var gengið frá neinni tryggingu. Sama dag og stofnfjárbréfin voru skráð á Fossvogshyl var félagið framselt frá Deloitte til sonar Geirmundar, Sverris Geirmundssonar.

Skuldin var skráð hjá dótturfélagi sparisjóðsins og var hún afskrifuð árið 2010.

Svört mynd dregin upp af rekstrinum

Spari­sjóður­inn var yf­ir­tek­inn af rík­inu árið 2010 og sam­einaðist Lands­bank­an­um árið 2011. Þurfti ríkið að greiða bank­an­um 19,2 millj­arða vegna sam­ein­ing­ar­inn­ar.

Eft­ir fall sjóðsins fékk Fjár­mála­eft­ir­litið end­ur­skoðun­ar­fyr­ir­tækið PriceWater­hou­seCoo­pers til að gera út­tekt á starf­semi sjóðsins. Skýrsl­an var sögð draga upp svarta mynd af rekstri hans og að meðal ann­ars hafi háar fjár­hæðir verið lánaðar starfs­mönn­um, stjórn­end­um og fé­lög­um þeim tengd­um án trygg­inga.

Frétt mbl.is: Ríflega 700 milljóna umboðssvik

Frétt mbl.is: Geirmundur sparisjóðsstjóri ákærður

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK