Selur 139 fasteignir á einu bretti

mbl.is/Hjörtur

Samningur var undirritaður í gær á milli Íbúðalánasjóðs og leigufélagsins Heimavalla um kaup félagsins á 139 fasteignum í eigu sjóðsins. Fasteignirnar eru keyptar í einu lagi en félagið átti hæsta tilboðið í þær í opnu söluferli sem hófst í desember.

Fram kemur í fréttatilkynningu að 106 íbúðanna sem seldar voru séu á Austurlandi, en aðrar á Vestfjörðum og Vesturlandi. Alls hafi 504 fasteignir í fimmtán eignasöfnum verið auglýstar samtímis. Samtals hafi borist kauptilboð frá 43 ólíkum aðilum í eignirnar. Gengið verði frá sölu á fleiri eignum á næstu dögum. Þá segir að sala íbúðanna 139 til Heimavalla muni hafa jákvæð áhrif á afkomu Íbúðalánasjóðs en söluverðmæti þeirra nemi alls rúmlega 1,8 milljörðum króna. 

„Tilboðsgjafar í eignirnar hafa talið að jákvæð merki sem nú sjáist á landsbyggðinni, breytingar í atvinnurekstri, fjölgun ferðamanna og meira framboð afþreyingar muni styðja við þessi svæði. Innkoma traustra leigufélaga mæti mikilli eftirspurn sem verið hefur eftir leigueignum á þessum stöðum að undanförnu,“ segir ennfremur. Með sölunni lækki eignastaða Íbúðalánasjóðs á Austurlandi úr 232 eignum í 126 eignir.

„Þá má sömuleiðis nefna að sjóðurinn seldi nýverið 18 eignir á Fáskrúðsfirði til annars leigufélags og hefur mikil eftirspurn verið eftir leigu þeirra íbúða. Samsetning eigna í hverju safni í söluferlinu miðaðist við að hagkvæmt gæti verið að reka um þær leigufélög og eru eignir í hverju þeirra að jafnaði í sama byggðarlagi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK