Allir erfingjarnir ganga í Lego-skóla

Kjeld Kirk Kristiansen hefur verið við stjórnvölinn hjá Lego síðastliðin þrjátíu ár. Nú hefur hann ákveðið að draga sig í hlé og tekur sonur hans, Thomas Kirk, við keflinu af föður sínum. Hann er 37 ára og er af fjórðu kynslóð Lego-fjölskyldunnar. Fyrirtækið er þegar byrjað að þjálfa fimmtu kynslóðina í svokölluðum Lego-skóla.

Í viðtali við danska blaðið Finans segir Kjeld að það hafi legið fyrir í mörg ár að Thomas tæki að lokum við keflinu en mikið hefur verið lagt í að undirbúa hann fyrir stöðuna. Hann á tvær systur, Sofie og Agnete, sem báðar eru á fertugsaldri og taka þær einnig virkan þátt í starfsemi fyrirtækisins.

Systkinin eiga sex börn, allt stúlkur og eru þær af fimmtu kynslóð Lego-fjölskyldunnar. Eftir að þær ná tveggja ára aldri hefja þær nám í svokölluðum Lego-skóla þar sem þær læra að verða góðir eigendur þessa stóra vörumerkis.

Í skólanum er aðeins ein námsgrein, Lego. Stúlkurnar eru á aldrinum þriggja til tíu ára og koma einu sinni í mánuði í skólann. Thomas segir að fjölskyldan hafi lært af reynslunni og séð hversu mikilvægt er að byrja snemma og kenna erfingjunum markvisst um vörur fyrirtækisins, menningu, gildi og framleiðslu.

Sjálfur var Thomas orðinn rúmlega tvítugur þegar hann fór að setja sig inn í starfsemi fyrirtækisins og segir í samtali við Finans að hann hefði þurft að byrja mun fyrr líkt og stúlkurnar sex. Það hafi tekið hann tíu til tólf ár að átta sig á því hvernig hlutirnir virkuðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK