Hætti áskriftarsölu að Sky á Íslandi

FRÍSK greindi frá bréfi Sky til Satís.
FRÍSK greindi frá bréfi Sky til Satís.

Breska fjölmiðlafyrirtækið Sky, sem meðal annars rekur sjónvarpsstöðvar undir eigin nafni í Bretlandi, Þýskalandi og á Ítalíu, hefur sent bréf til íslenska endursöluaðilans Satís þar sem farið er fram á að hann hætti að auglýsa og bjóða milligöngu um áskrift að bresku Sky-sjónvarpsveitunni á Íslandi, enda hafi Satís hvorki leyfi né umboð til að auglýsa Sky eða NowTV þjónustu á Íslandi.

Í samtali við mbl segist Hallur Ólafur Agnarsson, eigandi Satís, ekki vilja tjá sig um málið að svo stöddu en fyrirtækið ætlar að fara yfir stöðuna með lögfræðingi sínum í dag.

Greint var frá bréfi Sky til Satís í tilkynningu frá FRÍSK, Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði.

Þar segir að aðildarfélög samtakanna sem starfa á íslenskum markaði hafi árum saman þurft að horfa upp á ósanngjarna samkeppni frá erlendum aðilum sem sækja hingað til lands viðskipti sem nema mörg hundruð milljónum króna.

Hafa ekki keypt réttinn fyrir Ísland

Fyrirtækin séu skráð erlendis og hafi í flestum tilvikum ekki keypt réttindi fyrir Ísland, sem íslensk fyrirtæki þurfi oft að greiða háar upphæðir fyrir.

„Hafa þessi fyrirtæki þar af leiðandi tekjur af stórum hluta innlenda markaðarins og bjóða hér upp á sambærilega þjónustu og íslenskir samkeppnisaðilar, án þess að greiða hér á landi opinber gjöld eða lúta kvöðum um íslenska lýsingu á íþróttaviðburðum, talsetningu og aldursmerkingar.“

Í ljósi þessa aðstöðumunar geti hin erlendu fyrirtæki eðli málsins samkvæmt verðlagt sig undir þeirri þjónustu sem er í boði hér á landi, enda leggist opinberar álögur ekki á þjónustu þessara erlendu aðila.

FRÍSK segir fyrirtæki sem hafa ekki keypt réttindi fyrir íslenskan …
FRÍSK segir fyrirtæki sem hafa ekki keypt réttindi fyrir íslenskan sjónvarpsmarkað hafa ósanngjarnt samkeppnisforskot. Wikipedia

Ósanngjarnt samkeppnisforskot

FRÍSK segir nauðsynlegt að létta á regluverkinu.

„Það er nauðsynlegt að tryggja að íslenskar myndefnisveitur sitji við sama borð og samkeppnisaðilar þeirra erlendis frá. Til þess þarf hið opinbera að létta á regluverkinu og þeim kvöðum sem settar eru á innlenda aðila, en ekki þá erlendu. Ekki síður er mikilvægt að yfirvöld séu árvökul gagnvart höfundalagabrotum og öðrum þeim brotum gagnvart rétthöfum sem því miður eru látin viðgangast hér á landi,“ er haft eftir Hallgrími Kristinssyni, stjórnarformanni FRÍSK, í tilkynningu.

Þá segir að FRÍSK vilji fyrst og fremst tryggja að samkeppni sem fari fram hér á landi í afþreyingariðnaði sé lögleg og sanngjörn.

„Það er skaðlegt fyrir allt þjóðfélagið ef einstakir aðilar reyna að ná samkeppnisforskoti með því að bjóða þjónustu sem ekki hafa verið keypt réttindi fyrir hér á landi og borga ekki af henni opinber gjöld. Samtökin fagna því að bandaríska sjónvarpsveitan Netflix hafi opnað formlega fyrir þjónustu sína hér á landi í byrjun árs. Þó þurfi að tryggja að hún borgi hér opinber gjöld eins og kveðið er á um í lögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK