Kristján losar hlut í HB Granda

Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda.
Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda. mbl.is/Árni Sæberg

Hampiðjan hyggst selja 8,79 prósent hlut sinn í HB Granda til að fjármagna kaup á færeyska fyrirtækinu P/f Von. Hampiðjan er þriðji stærsti hluthafi HB Granda.

Í mars keypti Hampiðjan 73,38% hlut í færeyska fyrirtækinu.

Félögin Hampiðjan og HB Grandi eru bæði að mestu leyti í eigu systkinanna Kristjáns Loftssonar, stjórnarformanns HB Granda, og Birnu Loftsdóttur auk Sigríðar Vilhjálmsdóttur.

Hampiðjan hefur verið hluthafi í HB Granda um árabil og nemur hluturinn í dag 8,79%. Félagið Vogun hf. er stærsti hluthafi Hampiðjunnar og jafnframt stærsti hluthafi HB Granda.

Vogun hf. er í eigu Hvals hf., sem aftur er í eigu Fiskveiðahlutafélagsins Venusar hf. Venus er að lokum í eigu Kristjáns, Birnu og Sigríðar.

Lokað útboð á vegum Arion

Í tilkynningu frá Hampiðjunni hf. sem birt var á markaði fyrr í dag, kemur fram að Hampiðjan hyggist skoða sölu á hlutabréfaeign sinni í HB Granda hf. í lokuðu útboði í tengslum við fyrirhuguð kaup Hampiðjunnar á hlutafé í P/F Von í Færeyjum.

Í tilkynningunni segir að félagið hafi nú þegar tryggt fjármögnun á viðskiptunum en að félagið hafi áhuga á að skoða möguleikann á að fjármagna viðskiptin að hluta eða í heild með sölu hlutabréfaeignar í HB Granda hf. 

Þá kemur fram að Hampiðjan hafi ráðið fjárfestingabankasvið Arion banka hf. til að sjá um söluferlið og að Arion banki hyggist senda út tilkynningu um fyrirkomulag þegar nær dregur.

Boðnir verða til sölu alls 160.074.981 hlutir í HB Granda hf. sem nú eru í eigu Hampiðjunnar hf. Samsvara hlutirnir 8,79% af skráðu hlutafé HB Granda hf.

Í tilkynningu segir að óvíst sé hvaða áhrif þetta muni hafa á gengi hlutabréfa í HB Granda, ef nokkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK