Auroracoins verður að krónum

Grafið er eftir rafmynt í gagna­ver­um.
Grafið er eftir rafmynt í gagna­ver­um.

Í dag var fyrsta íslenska kauphöllin fyrir Auroracoins formlega opnuð. Allir Íslendingar fengu rafmyntina gefins fyrir nokkru og geta nú umbreytt henni í íslenskar krónur eða tekið þátt í þessu hagkerfi. Miðað við gengi dagsins og upphæðina sem Íslendingar fengu er verðmætið um 38 þúsund krónur.

Þetta er fyrsta netgjaldmiðla kauphöllin á Íslandi en sambærilegar kauphallir eru til erlendis fyrir Bitcoin rafmyntina. Í þeirri íslensku er einungis hægt að eiga viðskipti með Auroracoins en um 99% af heildarupplagi myntarinnar er í eigu Íslendinga að sögn Hlyns Þórs Björnssonar, eins stofnanda ISX kauphallarinnar.

Kauphöllin hefur verið opin í betaútgáfu í fjóra mánuði og hafa einhver viðskipti átt sér stað. Hún var opnuð formlega í morgun og segir Hlynur að opnuninni hafi fylgt einhver kippur á markaði. „En það er engin bóla ennþá farin af stað,“ segir Hlynur glettinn. 

Hressileg hækkun

Á þessum fjórum mánuðum hefur gengi rafmyntarinnar hækkað hressilega, eða úr sjö íslenskum krónum fyrir hverja Auroracoin og upp í 38,5 krónur þegar þetta er skrifað. Þetta jafngildir um 430% ávöxtun, sem er töluvert meira en verið hefur á hlutabréfamörkuðum, svo dæmi sé tekið. Gengisþróun Auroracoin er þó ekki óeðlileg og hefur fylgt gengi Bitcoin að sögn Hlyns. 

Líkt og einhverjir eflaust muna fengu allir Íslendingar Auroracoins gefins í þremur úthlutunum á árunum 2014 og 2015. Þrátt fyrir að allir hafi átt kost á myntinni sóttu hana ekki allir og er það orðið of seint í dag. Um tíu prósent þjóðarinnar sótti rafmyntina í fyrstu úthlutun og fengu þá 31,8 aura. Í annarri úthlutun voru 318 aurar í boði og í þeirri þriðju voru 636 aurar í boði.

Þetta jafngildir 985,8 Auroracoins. Í dag er hægt að umbreyta þessum aurum yfir í íslenskar krónur í ISX kauphöllinni og miðað við gengi dagsins nemur verðmætið um 38 þúsund krónum.

Svipað og milifærslur í banka

Notkunarleiðbeiningar má finna á heimasíðu kauphallarinnar en ferlið er svipað og með millifærslur í banka. Þeir sem vilja fjárfesta í Auroracoins millifæra einfaldlega fjármuni yfir í kauphöllina og kaupa rafmyntina. Þeir sem vilja selja myntina millifæra hana einnig yfir í kauphöllina þar sem hún er seld á markaði fyrir krónur.

Myntina má finna í svokölluðum „veskjum“ sem hægt er að sækja á heimasíðu Auroracoin. Þeir sem sóttu myntina upphaflega náðu í þetta veski. Hafi veskinu verið eytt út af tölvunni er hægt að sækja það aftur og fara þá sömu aurar í nýja veskið. Þetta gildir þó einungis ef sama tölva er notuð í verkið. Þeir sem hafa losað sig við tölvuna sem notuð var á sínum tíma hafa glatað sínum aurum. 

Einhverir sóttu rafmyntina þó í svokallað pappírsveski og prentuðu þá út lykilnúmer fyrir myntina. Þeir þurfa að sækja sér nýtt veski og slá lykilorðið þar inn. Pappírsveskið verður þar með flutt yfir í tölvuveskið.

Kauphöllin mögulega opnuð fyrir Bitcoin

Aðspurður um væntingar fyrir kauphöllina segir Hlynur þær vera hófstilltar og bætir við að um nokkurs konar hagfræðitilraun sé að ræða. „Við gerum okkur kannski ekki miklar væntingar um að þetta verði risastórt eins og Bitcoin en það getur vel verið að einhverjir kaupmenn vilji nota þetta sem ódýrari greiðslumáta,“ segir hann.

Líkt og áður segir er um 99% af öllum Auroracoins í eigu Íslendinga. Það sem eftir stendur er farið úr landi. „Einhverjir seldu þetta á erlendum mörkuðum á sínum tíma þegar Auroracoins verkefnið var að fara af stað,“ segir hann. Þegar Auroracoins voru upphaflega gefnir út árið 2014 var engin leið fyrir Íslendinga að kaupa meira magn af öðrum Íslendingum. Fólk gat hins vegar leitað í erlendar kauphallir og selt Auroracoins fyrir Bitcoins og selt Bitcoins síðan fyrir dollara sem hægt var að flytja heim til Íslands.

Þessi viðskipti utan landssteinanna hafa hins vegar gengið að takmörkuðu leyti sökum gjaldeyrishafta. Aðspurður um framtíðina eftir gjaldeyrishöft segir Hlynur að nýja íslenska ISX kauphöllin verði þá mögulega opnuð fyrir Bitcoin rafmynt.

Því sem ekki var sótt var eytt

Auroracoin gjaldmiðillinn er líkt og Bitcoin ólíkur hefðbundnum peningum þar sem endanlegt upplag er alveg ljóst. Mikill fyrirsjáanleiki er fólginn í notkuninni þar sem aukin peningaprentun er ekki í boði.

Aldrei verður til meira en 21 milljón eintök af Auroracoins. Í dag hafa verið búnar til um 12 milljónir stykkja en hluta þess, eða um 5,5 milljónum var eytt, vegna þess að Íslendingar sóttu ekki allt það sem í boði var á þeim tíma. 

Frétt mbl.is: Bitcoin: Gjaldmiðill Íslands?

Hlynur Þór Björnsson.
Hlynur Þór Björnsson.
Gengi Auroracoins hefur hækkað verulega undanfarið.
Gengi Auroracoins hefur hækkað verulega undanfarið. Skjáskot úr ISX kauphöllinni
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK