Hagnaður TM lækkar um 86%

Tryggingamiðstöðin.
Tryggingamiðstöðin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afkoma TM á fyrsta ársfjórðungi var lakari en áætlun gerði ráð fyrir og skýrist það fyrst og fremst af lægri fjárfestingatekjum. Mikill afkomubati varð í vátryggingastarfseminni milli ára og var hún í samræmi við áætlun fjórðungsins.

Hagnaður félagsins dróst saman um 86% milli ára og nam 10 milljónum króna samanborið við 72 milljónir á sama tíma í fyrra. Áætlun félagsins um 2,4 milljarða króna hagnað á árinu 2016 stendur hins vegar óbreytt þrátt fyrir nokkra óvissu á fjármálamörkuðum að því er segir í afkomutilkynningu.

Fjárfestingartekjur námu 409 milljónum króna á fjórðungnum en það jafngildir 1,6% ávöxtun fjárfestingaeigna.

Afkoman var 108 milljónum króna undir áætlun og skýrist af krefjandi aðstæðum á verðbréfamörkuðum, að því er segir í afkomutilkynningu.

Markaðsvísitala Gamma hækkaði aðeins um 1,5% á fjórðungnum og lækkun var á erlendum hlutabréfamörkuðum. Þá hafði styrking íslensku krónunnar neikvæð áhrif á fjárfestingatekjur tímabilsins sem nemur 63 milljónum króna.

Á fjórðungnum fór fram endurmat á óskráðum hlutabréfum og hækkuðu þau um rúmar 100 milljónir króna. Skýrist sú hækkun aðallega af viðskiptum með undirliggjandi hlutabréf.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM.
Sigurður Viðarsson, forstjóri TM. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Betri gangur í vátryggingastarfsemi

Allir greinaflokkar vátrygginga skila hins vegar betri afkomu en á sama tíma í fyrra ef frá eru taldar sjótryggingar en þar bar nokkuð á meðal stórum tjónum.

Slysa- og ökutækjatryggingar eru þó enn með samsett hlutfall yfir 100% en fyrsti fjórðungur ársins er að jafnaði sá tjónaþyngsti í þessum greinarflokkum vegna tíðarfars og gera áætlanir félagsins ráð fyrir því. Samsett hlutfall lækkar um 19% stig milli ára og fer úr 126% í 107%. Áætlun félagsins gerði ráð fyrir því að samsett hlutfall í vátryggingum yrði 108% á tímabilinu.

Eiginfjárhlutfall félagsins var 30,4% í lok fyrsta ársfjórðungs samanborið við 28% á sama tíma í fyrra. Handbært fé frá rekstri var 921 milljón króna í lok fjórðungsins samanborið við 766 milljónir á sama tíma í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK