Eitt fyrirtæki með 70% tollkvótans

Úr kjötborði.
Úr kjötborði. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Mata hf., systurfyrirtæki Síldar og fisks hf., fær í ár tæplega 70% af tollfrjálsum innflutningskvóta fyrir svínakjöt samkvæmt samningi Íslands og Evrópusambandsins um fríverslun með búvörur. Fyrirtækin eru bæði í eigu Langasjávar hf., sem aftur er að stærstum hluta í eigu Coldrock Investments á Möltu.

Síld og fiskur hefur að mati samkeppnisyfirvalda 40 til 45% markaðshlutdeild á svínakjötsmarkaðnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda. Félagið bendir á að það hafi lengi gagnrýnt uppboð á tollkvótum. Þau leiði meðal annars af sér að innlendir framleiðendur geti boðið hátt í innflutningskvóta og hækkað þannig verð á innflutningnum.

Tollkvótinn er 200 tonn og fær Mata á þessu ári tæplega 139 tonn í sinn hlut. „Ætla verður að þessi innflutningur sé nýttur á vegum systurfyrirtækisins Síldar og fisks og kjötið ýmist unnið áfram eða pakkað í neytendaumbúðir á þess vegum,“ segir í tilkynningu FA.

„Við höfum lengi bent á ýmsar neikvæðar hliðar á því fyrirkomulagi að bjóða upp tollkvóta fyrir búvörur og úthluta honum til hæstbjóðenda. Útboðsgjaldið fer stöðugt hækkandi og étur upp ávinning neytenda af tollfrelsinu sem samið var um við ESB,“ er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í tilkynningu,

„Ein neikvæð afleiðing þessa kerfis er að innlendum framleiðendum er í lófa lagið að bjóða hátt í innflutninginn og halda þannig uppi verði á honum. Þannig verða neytendur af þeirri verðlækkun sem var yfirlýstur tilgangur með samningunum við Evrópusambandið á sínum tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK