Gert að endurgreiða 13,8 milljónir

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/ÞÖK

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt konu til að endurgreiða þrotabúi GM framleiðslu (áður Gunnars majónes) 13,8 milljónir króna auk þess sem 2,6 milljóna króna greiðslu þrotabúsins til konunnar, sem var stjórnarformaður, hefur verið rift.

Þetta kemur fram í dómi sem féll fyrir sl. föstudag. GM framleiðsla var úrskurðuð gjaldþrota árið 2014.

Þrotabú GM framleiðslu höfðaði málið og krafðist þessa að launagreiðslum vegna áranna 2012 og 2013, samtals að fjárhæð 7,4 milljónir króna, yrði rift. Þá var þess krafist að konan greiddi þrotabúinu samtals 18,7 milljónir króna. Er byggt á því að hún hafi greitt sér allt of há laun á tímabili þegar rekstur fyrirtækisins var farinn að ganga illa, en hún átti 27,8% hlut í félaginu á þessum tíma. 

Launin hækkuðu fimmfalt

Héraðsdómur segir að að konunni hafi ekki getað dulist að rekstur félagsins hafi verið orðinn verulega erfiður, bæði í ljósi starfa hennar við að semja um vangoldnar greiðslur hjá kröfuhöfum þeirra til að hægt væri að greiða út laun og að kaupa inn nauðsynlegasta hráefni til framleiðslunnar svo og að ekki voru alltaf til peningar í félaginu til að greiða hennar eigin laun á réttum tíma. Að auki sat hún ásamt systur sinni og móður í stjórn félagsins og gat þar af leiðandi ekki dulist fjárhagsleg staða félagsins, enda skrifaði hún sjálf undir ársreikning fyrir rekstrarárið 2012 og fundargerðir félagsins.

Þá verði ekki séð að það hafi verið með samþykki stjórnar að laun stefndu hækkuðu úr 260.000 krónum á mánuði í 1.345.000 krónur en konan lýsti því sjálf fyrir dóminum að hún hafi átt í félaginu og því ráðið því sjálf hversu há launin hennar voru.

Taldi dómurinn því fram komna fulla sönnun þess að konan hefði vitað um fjárhagserfiðleika í rekstri félagsins allt frá árinu 2012 og þar til það fór í gjaldþrot.  

Til rannsóknar hjá héraðssaksóknara

Fram kemur í dómnum, að stjórnarformaðurinn krafðist þess að aðalmeðferð málsins yrði frestað á meðan rannsókn sérstaks saksóknara á tilkynningu skiptastjóra á hendur stjórnarformanninum stæði yfir. Var þeirri kröfu hafna. Þá krafðist stjórnarformaðurinn aftur með vísan til nýrra gagna að aðalmeðferð málsins yrði frestað á meðan rannsókn hjá héraðssaksóknara á meintu misferli á fé félagsins stæði yfir. Var þeirri kröfu einnig hafnað.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir í samtali við RÚV að meint fjármálamisferli hjá Gunnars Majonesi hafi verið til rannsóknar um nokkurt skeið. Hann segir að rannsóknin sé langt komin.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK