Hvað gerist eftir aflandskrónuútboð?

Haftalosun kemur til með að hafa áhrif á fjármálamarkaði.
Haftalosun kemur til með að hafa áhrif á fjármálamarkaði. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Oft hafa verið færð rök fyrir því að innan fjármagnshafta hafi verið kleift að hafa lægra vaxtastig en ella og að hækka þurfi vexti í kjölfar losunar hafta. Eru því líkur á stýrivaxtahækkunum á næstunni?

Greiningardeild Arion banka segir nei.

„Okkar mat er að gjaldeyrisútboðið og afnám hafta gefi ekki tilefni til hækkunar vaxta. Í raun er raunvaxtastig nokkuð hátt eins og er miðað við núverandi verðbólgu og einnig hafa verðbólguvæntingar farið batnandi og eru merki um aukna kjölfestu verðbólguvæntinga,“ segir í Markaðspunktum Greiningardeildarinnar.

Í Markaðspunktum er farið yfir áhrif fyrirhugaðs gjaldeyrisútboðs þar sem eigendum aflandskróna verður boðið að skipta eignum sínum í gjaldeyri eða greiða fyrir lyftingu hafta af krónueignum. Líkt og fram hefur komið var frumvarp um efnið samþykkt um helgina.

Frétt mbl.is: Frumvarp um aflandskrónur samþykkt

Greiningardeild Arion telur haftalosun ekki gefa tilefni til vaxtahækkunar.
Greiningardeild Arion telur haftalosun ekki gefa tilefni til vaxtahækkunar. mbl.is/Árni Sæberg

Þrátt fyrir að frumvarpið hafi verið samþykkt liggja skilmálar gjaldeyrisútboðsins ekki fyrir og gætu þeir haft töluverð áhrif á gang mála.

Aflandskrónueignirnar eru háðar bindiskyldu og þurfa bankar því að kaupa innstæðubréf Seðlabankans fyrir fjárhæð sem jafngildir aflandskrónueigninni. Að lokum hafa aflandskrónueigendur kost á að fara út í gegnum viðmiðunargengið 220 krónur á evru til 1. nóvember.

Líkt og Greiningardeildin bendir á verður nóvembertilboð Seðlabankans væntanlega óhagstæðara fyrir aflandskrónueigendur en þátttaka í útboðinu.

Engan veginn er því hægt að áætla áhrif á Seðlabankann með því einu að horfa til mismunar á núverandi gengi krónu á móti evru og viðmiðunargengisins 220.

Þörf á stórum gjaldeyrisforða

Hver áhrif útboðsins verða á gjaldeyrisforðann veltur annars vegar á þátttöku í útboðinu og hins vegar á útboðsgenginu. Gjaldeyrisforði Seðlabankans var 760 milljarðar króna í lok apríl og sá hluti sem ekki er skuldsettur, þ.e. fjármagnaður í krónum, er tæplega 400 milljarðar króna í kjölfar kraftmikilla gjaldeyriskaupa Seðlabankans síðustu tvö ár.

Bankinn hefur sagt þörf á stórum gjaldeyrisforða, m.a. vegna óvissu um losun hafta.

Myndin sem Greiningardeildin hefur tekið saman og birtist hér að neðan sýnir hve stórum hluta af gjaldeyrisforðanum Seðlabankinn þyrfti að ráðstafa, á lóðréttum ás, miðað við þátttökuhlutfall og gengi í útboðinu, á láréttum ás.

Skjáskot/Greiningardeild Arion

Áhrif á fjármálamarkaði

Þegar næstu skref um losun fjármagnshafta liggja fyrir má færa ýmis rök fyrir því að það dragi úr eftirspurn á fjármagnsmörkuðum. Heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta erlendis aukast væntanlega hratt þegar líður á árið og sama gildir um almenning og fyrirtæki.

Líkt og Greiningardeildin bendir á gæti dregið úr fjárfestingu erlendra aðila á skuldabréfamarkaði þar til útboðinu er lokið og einnig hefur Lindarhvoll ehf., sem annast um­sýslu og fulln­ustu stöðug­leika­eigna, ákveðið að selja um átta milljarða króna af skuldabréfum í dag og á morgun en það eykur framboð á skuldabréfamarkaði tímabundið.

Ýmis merki eru því um aukið framboð og lakari eftirspurn til skamms tíma litið.

Á hinn bóginn munu eigendur ríkisbréfa skipta þeim út fyrir evrur ef þátttaka í gjaldeyrisútboðinu verður sæmileg. Lánamál ríkisins taka því á móti ríkisbréfum og getur það dregið úr útgáfuþörf ríkisins á skuldabréfamarkaði í ár. Einnig eru því rök fyrir minna framboði.

Greiningardeild Arion spáir fyrir um áhrif aflandskrónuútboðsins á íslenskt efnahagslíf.
Greiningardeild Arion spáir fyrir um áhrif aflandskrónuútboðsins á íslenskt efnahagslíf. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Gæti dregið fjármagn til landsins

Þá er bent á að efnahagshorfur á Íslandi séu fremur góðar um þessar mundir og líklegt þykir að lánshæfismat ríkisins hækki í kjölfar næstu skrefa við losun hafta.

Í þessu sambandi má benda á að matsfyrirtækin hafa síðustu misserin horft til skuldastöðu ríkissjóðs, uppgjöra slitabúa bankanna, efnahagsþróunar og loks til haftanna sem hindrana gegn bættu lánshæfi. Skuldastaðan hefur batnað, uppgjörum slitabúanna er lokið, efnahagslífið stendur nokkuð vel, sérstaklega í alþjóðlegu samhengi, og þá eru bara höftin eftir.

„Sú staðreynd ein og sér að hér eru hærri vextir en annars staðar og að lánshæfismat gæti farið batnandi getur dregið fjármagn til landsins í auknum mæli. Hver áhrifin verða á flæði á fjármagnsmörkuðum til lengri tíma litið á því eftir að koma í ljós,“ segir Greiningardeild Arion banka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK