Airbnb skoðar frumvarp Ragnheiðar

Forsvarsmenn bandaríska netrisans Airbnb eru nú farnir að veita íslenskum markaði aukna athygli vegna frumvarps Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra um heimagistingu þar sem reglur um slíka starfsemi eru hertar og þeim sem stunda slíka útleigu eru settar strangari skorður.

Airbnb hefur skilað inn umsögn um frumvarpið og fulltrúar fyrirtækisins eru væntanlegir hingað til lands á næstu vikum til þess að kynna sér aðstæður betur og funda með hagsmunaaðilum. Hingað til hefur fyrirtækið ekki haft nein afskipti af rekstrinum hér á landi og sýnir þessi viðleitni fyrirtækisins að þar séu nokkrar áhyggjur af gangi mála. Þó ber að halda því til haga að margt í frumvarpinu þyki til bóta og að samhljómur sé um að nauðsynlegt sé að festa reglur um skammtímaútleigu á fasteignum.

Til að mynda mætti ekki leigja eign út í lengri tíma en sem nemur 90 sólarhringum á ári og þá mega tekjur ekki fara umfram tvær milljónir á ári, verði frumvarpið að lögum. Sölvi Melax, talsmaður Samtaka um skammtímaleigu á heimilum, segir að slíkt regluverk yrði með því strangara sem þekkist í heiminum.

Áður hafa verið settar reglur um leigu í gegnum Airbnb á afmörkuðum svæðum eða í borgum þar sem starfsemin hefur haft áhrif á fasteigna- og leiguverð en óþekkt er að setja slíkar reglur yfir heilt land. Mbl.is ræddi við Sölva um frumvarpið en hann fagnar því að fyrirtækið sé farið að veita gangi mála hér á landi aukna athygli.

Fyrr í vikunni voru birtar tölur um veltu á leigu á Airbnb-íbúðum hér á landi sem voru unnar af íslensku greiningarfyrirtæki. Þar kom fram að veltan sé um 2,2 milljarðar á ári en heimildir mbl.is herma að sú tala sé í raun mun hærri en fyrirtækið tekur u.þ.b. 15% þóknun af útleigugjaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK