Ekki stofnað aflandsfélag frá hruni

FME óskaði eftir upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum.
FME óskaði eftir upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármálafyrirtæki hafa hvorki með beinum hætti né í samstarfi við annan aðila haft milligöngu um stofnun lögaðila í lágskattaríkjum frá haustinu 2008. Fjármálaeftirlitið gerði á þessu athugun vegna umfjöllunar um Panamaskjölin.

Óskað var eftir upplýsingum um hvort fjármálafyrirtæki hefðu, með beinum hætti eða í samstarfi við annan aðila, haft milligöngu um stofnun lögaðila í lágskattaríki eða veitt viðskiptavinum þjónustu er tengist slíkum lögaðilum. Ef svo væri var óskað eftir ítarlegum upplýsingum um þá starfsemi fjármálafyrirtækjanna, þ.m.t. umfang hennar.

Þrátt fyrir að fjármálafyrirtæki hafi ekki haft milligöngu um stofnun félags í lágskattaríkjum á síðustu árum veita þau slíkum félögum bankaþjónustu og aðra leyfisskylda fjármálaþjónustu, þ.m.t. þjónustu á borð við innláns- og vörslureikninga, lánafyrirgreiðslu og verðbréfaþjónustu.

Umfang slíkrar þjónustu telst þó óverulegt samkvæmt upplýsingum Fjármálaeftirlitsins.

Núgildandi lög standa ekki í vegi fyrir því að fjármálafyrirtæki, sem hafa heimild til að stunda fyrirtækjaráðgjöf samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, hafi milligöngu um stofnun lögaðila erlendis fyrir viðskiptavini sína, þ.m.t. í lágskattaríkjum, sé slík þjónusta veitt í lögmætum tilgangi og í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti.

Fjármálaeftirlitið.
Fjármálaeftirlitið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hafa fjárfest í félögum í lágskattaríkjum

Líkt og áður segir óskaði eftirlitið einnig eftir upplýsingum um fjárfestingar lífeyrissjóða og vátryggingafélaga í lágskattaríkjum.

Samkvæmt upplýsingum sem bárust Fjármálaeftirlitinu hafa lífeyrissjóðir og vátryggingafélög fjárfest í lögaðilum skráðum í lágskattaríkjum en slíkar fjárfestingar eru óverulegur hluti eignasafns þeirra.

Fjárfestingarnar eru innan aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og því í samræmi við fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða samkvæmt lögum.

Fjármálaeftirlitið mun áfram fylgjast með þeim upplýsingum sem fram koma í tengslum við þessi mál og taka til frekari skoðunar ef tilefni er til.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK