Íslandsbanki fær jafnréttisverðlaun

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, tekur við jafnréttisverðlaunum úr hendi Ragnheiðar …
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, tekur við jafnréttisverðlaunum úr hendi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Íslandsbanki hlaut í dag Hvatningarverðlaun jafnréttismála sem veitt voru í þriðja sinn í dag. Dómnefnd segir fyrirtækið hafa uppfyllt þætti bæði í innra og ytra umhverfi fyrirtækisins sem stuðla að auknu jafnrétti.

Íslandsbanki hlaut einnig Gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC en merkið er veitt fyrirtækjum þar sem launamunur kynjanna er innan við 3,5%. 

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, afhenti verðlaunin í morgun á fundinum „Er pláss fyrir jafnrétti í nýsköpun? í Háskólanum í Reykjavík. Að verðlaununum standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, landsnefnd UN Women á Íslandi, Samtök atvinnulífsins og Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð.

Markmiðið með Hvatningarverðlaunum jafnréttismála er að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem sett hafa jafnrétti á oddinn og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Orkuveita Reykjavíkur og Rio Tinto Alcan hafa áður hlotið Hvatningarverðlaun jafnréttismála.

Áhersla virðist lögð á ungu kynslóðina

Verðlaunin eru veitt fyrirtæki sem hefur stuðlað að auknum möguleikum beggja kynja til starfsframa, jöfnum launum kynjanna, jöfnum hlutföllum kynjanna í stjórnendastöðum og aukinni vitund um þann ávinning sem jafnrétti hefur fyrir fyrirtækið og samfélagið.

Í rökstuðningi dómnefndar segir að margar mjög góðar tilnefningar hafi borist dómnefndinni í ár. Sérstaka athygli vöktu nokkur dæmi um vinnustaði sem leggja ríka áherslu á að stuðla að jafnrétti með stefnu og markvissum aðgerðum er beinast að ungu kynslóðinni.

Árangur jafnréttisstefnunnar birtur

„Í jafnréttisáætlun fyrirtækisins, sem er samofin mannauðsstefnu þess, er jafnrétti kynjanna tryggt og skýrt tekið fram að starfsmenn njóti sömu kjara fyrir sambærilega frammistöðu í störfum sem fela í sér sambærilega ábyrgð. Jafnréttisáætlun tryggir að jafnræðis og hlutleysis sé gætt við ráðningar, val í nefndir, stjórnir og ráð á vegum þess og jafnframt að jafnvægi milli starfs og einkalífs sé virt,“ segir í rökstuðningi. 

Þá er tekið fram að mannauðsstefna fyrirtækisins sé aðgengileg bæði á innri og ytri vef þess. Mælanlegur árangur stefnunnar, og þar með jafnréttisáætlunar fyrirtækisins, sé birtur opinberlega í útgefinni samfélagsskýrslu fyrirtækisins. Fyrirtækið leggi mikla áherslu á að kynna jafnréttisstefnuna fyrir nýjum starfsmönnum og stjórnendum til að tryggja þekkingu á áherslum fyrirtækisins strax í upphafi.

Stendur fyrir fræðslu um jafnréttismál

Þá segir að Íslandsbanki vilji jafnframt vera öðrum fyrirtækjum fyrirmynd í jafnréttismálum og hafi látið sig varða jafnréttismál utan fyrirtækisins, meðal annars með þátttöku í ráðstefnum og fundum um málaflokkinn.

Fyrirtækið hefur skrifað undir Jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact. Þá hefur fyrirtækið staðið fyrir frumkvöðlanámskeiði og -keppni kvenna í samstarfi við Opna háskólann í Háskólanum í Reykjavík og FKA í þeim tilgangi að auka áhuga og efla konur í frumkvöðlastarfi.

Íslandsbanki hefur styrkt sérstaklega þátttöku afrekskvenna í íþróttum. Fyrirtækið hefur einnig verið í samstarfi við Ungar athafnakonur og haldið vel sótta fundi um jafnréttismál þar sem ungt fólk er sérstaklega fengið til umhugsunar um jafnréttismál í atvinnulífinu og á vinnustöðum.

Aukið hlut kvenna í karllægum geira

Í rökstuðningi dómnefndar er tekið fram að fyrirtækið hafi lagt ríka áherslu á jöfn tækifæri kvenna og karla og með markvissum hætti aukið hlut kvenna í yfirstjórn þess og aukið þannig hlut kvenna í karllægum geira. Þá hafi fyrirtækið farið af stað með verkefni sem hafa það að markmiði að auka auka jafnrétti og stuðla að aukinni framgöngu kvenna innan fyrirtækisins og í atvinnulífinu almennt.

Áhersla er lögð á vellíðan í starfi og sveigjanleika þar sem því verður við komið til að samræma vinnu og fjölskyldulíf. Feður jafnt sem mæður eru hvött til að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs.

Tekið er fram að árangurinn í jafnréttismálum beri þess merki að unnið hafi verið markvisst að þessum málaflokki um árabil með góðum árangri. Sem stórt fyrirtæki á íslenskum markaði hafi Íslandsbanki einnig nýtt sér stöðu sína til að hafa jákvæð og sterk áhrif í jafnréttismálum utan fyrirtækisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK