Kristján vill kosningu „með fótunum“

Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda.
Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda, telur áhrif lífeyrissjóða í skráðum félögum umhugsunarverð. Vísar hann til þess að margoft hafi verið bent á að heppilegast væri að slíkir fjárfestar beiti áhrifum sínum með þeim hætti „að þeir kjósi með fótunum", það er að séu þeir ósáttir við stjórnun félaganna selji þeir hlut sinn og láti þannig í ljós skoðun sína. 

Þetta kemur fram í umsögn sem Kristján hefur skilað inn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Gerir hann tillögu um viðbót við 4. gr. laganna er lýtur að þessu.

Tapaði nýlegri baráttu

Átök voru um síðasta ársfund HB Granda þegar Lífeyrissjóður verslunarmanna fór fram á margfeldiskosningu við stjórnarkjörið og var kjöri frestað á síðustu stundu þegar allir stjórnarmenn félagsins drógu framboð sín til baka á fundinum.

Á framhaldsaðalfundi var Anna G. Sverrisdóttir kjörin ný inn í stjórn félagsins en hún var studd af Lífeyrissjóði verslunarmanna. Í kjörinu felldi hún Þórð Sverrisson, sem hefur átt sæti í stjórn HB Granda frá árinu 2014.

Átök hafa staðið milli kjölfestufjárfesta og lífeyrissjóðsins um skipan stjórnarinnar allt frá því að sjóðurinn kom inn í hluthafahópinn við skráningu fyrirtækisins á markað. Lífeyrissjóður verslunarmanna á ríflega 12% hlut í fyrirtækinu.

Lífeyrissjóður verslunarmanna kom manni í stjórn HB Granda á síðasta …
Lífeyrissjóður verslunarmanna kom manni í stjórn HB Granda á síðasta aðalfundi.

Ástæða til varkárni

Í umsögn Kristjáns segir að með auknum heimildum lífeyrissjóða til fjárfestinga í íslensku atvinnulífi, meðal annars með kaupum á hlutafé, sé ástæða til þess að huga að því hvernig lífeyrissjóðirnir beiti þeim áhrifum sem slíkri fjárfestingu fylgja.

Vísar hann til þess að ágreiningur hafi komið upp þegar breytingar á samsetningu stjórna hafi verið knúnar fram með afli atkvæða lífeyrissjóðanna í óþökk stjórnenda félaganna og kjölfestufjárfesta. Bendir Kristján á að lífeyrissjóðirnir hafi jafnvel krafist margfeldiskosninga til að ná fram slíkum breytingum, líkt og gerðist í tilfelli HB Granda.

„Í ljósi þess að fjárfestingar lífeyrissjóðanna koma líklega til með að aukast í íslensku atvinnulífi er ástæða til að hafa gát á því hvernig á er haldið,“ segir Kristján.

mbl.is/Styrmir Kári

Bendir á norska olíusjóðinn

„Á það hefur margoft verið bent, að ef til vill sé heppilegast að slíkir fjárfestar beiti áhrifum sínum með þeim hætti, að þeir „kjósi með fótunum", það er að séu þeir ósáttir við stjórnun félaganna selji þeir hlut sinn og láti þannig í ljós skoðun sína. Mér er tjáð að til dæmis fylgi norski olíusjóðurinn þeirri stefnu að skipta sér ekki af rekstri þeirra félaga sem hann fjárfestir í en sé hann ósáttur við fjárfestinguna selur hann en sé hann sáttur kaupir hann hugsanlega meira.“

Leggur hann í ljósi þessa til lagabreytingu.

„Í ljósi þessa er bent á að til að sporna við óæskilegum afleiðingum sem þessum af vaxandi áhrifum stofnanafjárfesta í íslensku atvinnulífi væri í lögunum sett meðalhófsregla um beitingu áhrifa sem hlutafjáreign fylgir,“ segir hann og bendir á að í 4. gr. frumvarpsins mætti koma slíku ákvæði fyrir. 

Hljóðar það svo að tillögu Kristjáns: „Í fjárfestingastefnu skal setja reglur um meðferð sjóðanna á hlutafjáreign í félögum sem þeir hafa fjárfest í sem m.a. taki til þess við hvaða aðstæður beitt sé atkvæðavægi til að knýja fram breytingar á stjórn hlutafélags eða hlutast til um málefni þess og skal í þeim efnum byggt á meðalhófi og samstarfi við hluthafa og kjölfestufjárfesta. Sé um samstarf að ræða á milli sjóða skal það tilkynnt sérstaklega til viðkomandi félags og Kauphallar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK