Þessi ferðast frítt með WOW

Ferðalangarnir sem ferðast frítt með WOW í sumar.
Ferðalangarnir sem ferðast frítt með WOW í sumar. Ljósmynd/WOW

Fjórir einstaklingar sem ferðast frítt í boði WOW air í sumar hafa verið valdir. Um er að ræða þrjá karla og eina konu. Þau eru frá Kanada, Englandi og Bandaríkjunum og hafa fyrstu áfangastaðir þeirra verið valdir.

WOW auglýsti á dögunum eftir fólki í sumarvinnuna sem felst í ferðalögunum. Flugfélagið ætlar að greiða fyr­ir flug, hót­el og uppi­hald. Í samtali við mbl.is í síðasta mánuði sagði Svan­hvít­ Friðriks­dótt­ir, upp­lýs­inga­full­trúi WOW, að fjölmargir hefðu sýnt verkefninu áhuga.

Frétt mbl.is: Fjölmargir vilja ferðast frítt með WOW

Erla Björgheim Pálsdóttir, vefmarkaðsstjóri hjá WOW, segir að gríðarlegt magn af umsóknum hafi borist og að erfitt hafi verið að velja úr. Þeir sem urðu fyrir valinu áttu það öll sameiginlegt að hitta í hjartastað og kitla hláturtaugarnar með umsóknum sínum.

Líkt og áður segir urðu fjórir fyrir valinu, þrír karlmenn og ein kona.

Naila Abbasova er frá London og starfar sem sölustjóri hjá Selfridges í London. Hún á rætur sínar að rekja til Aserbaídsjan en fjölskyldan hennar býr í Toronto. Að sögn Erlu er er Naila mikill adrenalínfíkill og hefur m.a. farið í hæsta teygjustökk í heimi, fram af Macau Tower. Naila vídeóbloggar undir nafninu Chief Adventurer og er á Snapchat undir sama nafni.

Síðan er það Dave Keystone sem er frá Toronto og starfar þar sem framleiðandi og dagskrárgerðarmaður. Hann hefur meðal annars komið fram í þáttum sem heita Kids On en þar fékk hann einlæg stefnumótaráð hjá börnum. Dave er á Snapchat undir nafninu davekeystone.

Sá þriðji er varð fyrir valinu heitir Phillip Calvert. Hann var atvinnumaður í körfubolta og starfar nú sem körfuboltaþjálfari. Hann kemur upprunalega frá Milwaukee en hefur búið í Kaupmannahöfn í nokkur ár. Hann hefur búið til myndbönd úr ferðunum sínum og birt þau á Youtube. Phil „snappar“ undir nafninu philwaukee.

Sá fjórði nefnist Adam Rose og er leikari sem býr í Los Angeles en hann lék til að mynda í þáttunum Veronica Mars og kvikmyndinni Up in the Air. Að sögn Erlu er hann mikill húmoristi og gerir mest grín að sjálfum sér. Upp á síðkastið hefur hann verið duglegur að ferðast og vídeóblogga um ferðir sínar á YouTube. Þá er hann á Snapchat undir nafninu realadamrose.

Kostnaðurinn við verkefnið liggur ekki alveg fyrir þar sem allir …
Kostnaðurinn við verkefnið liggur ekki alveg fyrir þar sem allir áfangastaðir hafa ekki verið ákveðnir. Ljósmynd/WOW

Fyrsti áfangastaður ákveðinn

Ákveðið hefur verið hvert ferðalangarnir fara næst og er Dave á leiðinni til Barcelona, Naila til Washington, Adam til Parísar og Phil til Montréal.

Erla segir óskalista þeirra hafa ráðið fyrsta áfangastað. Hvert ferðinni er heitið eftir það mun koma í ljós og ekki er ólíklegt að vinir flugfélagsins á Snapchat fái að hafa áhrif þar á að sögn Erlu.

Þau komu til Íslands í byrjun vikunnar og stendur fyrsta ferðin þeirra yfir hér á landi. Hafa þau farið í Bláa lónið og fara í dag gullna hringinn og upp á jökul með Mountaineers of Iceland. Á morgun er stefnt á hvalaskoðunarferð.

Hægt er að fylgjast með ferðum þeirra og ævintýrum á Íslandi á WOW air Snapchatinu sem nefnist einfaldlega wow-air.

Í samtali við mbl.is í síðasta mánuði sagði upplýsingafulltrúi WOW að erfitt væri að segja til um kostnaðinn við verkefnið á þessum tímapunkti þar sem allir áfangastaðir hafi ekki verið ákveðnir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK