Gætu fengið aðgang að bankareikningum

Í athugasemdum við frumvarp um skattaundanskot sem lagt var fram …
Í athugasemdum við frumvarp um skattaundanskot sem lagt var fram í gær er bent á að erlend innheimtuyfirvöld geti krafið viðskiptabanka um að millifæra peninga af bankareikningi skuldara. Lagt er til að yfirvöld fái aðgang að skattframtölum við innheimtuaðgerðir. AFP

Yfirvöld gætu fengið upplýsingar um stöðu á bankareikningum gjaldenda við innheimtuaðgerðir verði nýtt frumvarp fjármálaráðherra um skattaundanskot að lögum. Bent er á að erlend innheimtuyfirvöld geti krafið viðskiptabanka um að millifæra peninga af bankareikningi skuldara.

Þetta er meðal þeirra breytinga er lagðar eru til í frumvarpi til breytinga á skattalögum sem lagt var fram í gær en það var unnið samkvæmt tillögum sérfræðinga á borð við ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og tollstjóra. Megintilgangur breytinganna er að draga félög íslenskra skattaðila í lágskattaríkjum heim.

Samkvæmt núgildandi lögum hafa innheimtumenn ríkissjóðs aðeins aðgang að fasteigna-, skipa- og ökutækjaskrá hérlendis. 

Árangurslaust þrátt fyrir peningaeign

Þekkt eru dæmi um að skattskuldarar eigi engar skráðar fasteignir eða bifreiðar sem hægt er að fullnusta til greiðslu á skattskuld. Umtalsverðir fjármunir geta hins vegar legið á bankareikningum og í verðbréfaeignum. 

Þegar staðan er þannig hefur innheimtuaðgerðum gjarnan lokið án þess að skattkrafa greiðist. Þess vegna er lagt til að yfirvöld fái einnig aðgang að skattframtölum skuldara.

Í athugasemdum við frumvarpið er bent á að heimildir innheimtumanna í nágrannalöndum Íslands til upplýsingaöflunar séu mun rýmri en hér á landi. Erlend skattyfirvöld geti m.a. fengið upplýsingar um allar peningalegar eignir í bönkum og jafnvel, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, krafið viðskiptabanka um að millifæra af bankareikningi skuldarans fjárhæð sem nemur skattskuld hans við ríkissjóð.

Áhrif Panamaskjalanna hér á landi eru veruleg og hefur nú …
Áhrif Panamaskjalanna hér á landi eru veruleg og hefur nú verið lagt fram frumvarp er á að þrengja að aflandsfélögum. AFP

Geta tekið upp 10 ára gömul mál

Verði frumvarpið að lögum ættu skattyfirvöld einnig að geta haldið málum er varða aflandseignir lengur á lofti. Lagt er til að heimild til endurákvörðunar verði lengd úr sex árum í tíu ár vegna tekna og eigna í lágskattaríkjum. Fyrningartími í sakamálum myndi einnig lengjast og lagt er til að sök vegna skattsvika í gegnum lágskattaríki fyrnist á tíu árum en ekki sex árum.

„Það hefur sýnt sig að liðið geta áratugir þar til uppgötvast eignir sem komið var undan skattlagningu, svo sem í gegnum lágskattaríki,“ segir í frumvarpinu en þetta var einmitt tilfellið í sumum þeirra mála er komu fram í aðkeyptu skattagögnunum sem skattrannsóknarstjóri fékk í fyrra. Það voru sömu mál og eru í Panamaskjölunum.

„Að baki slíku undanskoti liggja aðstæður sem ekki eru sambærilegar þeim aðstæðum sem almennir skattaðilar standa frammi fyrir, svo sem vegna skatteftirlits. Þykir því ekki óeðlilegt að skattyfirvöldum sé veittur rýmri tími til að rekja mál sem þessi auk þess sem möguleikinn til að endurákvarða skatt eykst,“ segir í athugasemdum.

Þrengja að aflandsfélögum

Frumvarpinu er ætlað að þrengja að þeim kostum og leiðum sem viðgangast eða standa til boða við skattaundanskot. Í því skyni er lagt til að skorður verði settar við nýtingu rekstrartaps félaga í lágskattaríkjum. Með því er allur vafi tekinn af um að óheimilt er að nýta eftirstöðvar rekstrartaps nema félag hafi stundað raunverulega atvinnustarfsemi og skattaðili geti lagt fram fullnægjandi gögn er liggi til grundvallar tapi og yfirfærslu þess.

Í sama skyni er lögð til takmörkun á yfirfærslu einstaklingsrekstrar yfir landamæri í einkahlutafélag í lágskattaríki. Það ætti einungis að verða heimilt þar sem skattlagning á tekjur, að teknu tilliti til frádráttarliða, er sambærileg og hér á landi. Einnig þarf að sýna fram á að um raunverulega atvinnustarfsemi sé um að ræða í félaginu.

Heimildin tekur þar með ekki til almennt skilgreindra aflandsfélaga. 

Bjarni Benediktsson lagði frumvarpið fram í gær.
Bjarni Benediktsson lagði frumvarpið fram í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aukin upplýsingaskylda um aflandsfélög

Til þess að tryggja skilvirkni er lagt til að upplýsingaskylda fjármálastofnana og lögmanna verði endurskoðuð. Í dag er fjármálafyrirtækjum, endurskoðendum, lögmönnum og öðrum aðilum sem veita alþjóðlega skattaráðgjöf og þjónustu vegna erlendra samskipta skylt að halda skrá yfir þá viðskiptavini sína sem þiggja slíka ráðgjöf og þjónustu.

Með skránni á að vera hægt að auðkenna skattaðila og geta yfirvöld hvenær sem er óskað eftir aðgangi að skránni.

Í frumvarpinu er lagt til að auk þess sem ráðgjafar- og þjónustuaðilum sé skylt að láta skattyfirvöldum í té umrædda skrá skuli þeir einnig láta þeim í té allar upplýsingar um starfsemi og eignir sem þeim má vera kunnugt um.

Þá er einnig lagt til að við verði bætt ákvæði þar sem kveðið er á um að í þeim tilvikum þegar um er að ræða félag, sjóð eða stofnun sem telst heimilisfast í lágskattaríki skulu ráðgjafar- og þjónustuaðilar óumbeðnir láta skattyfirvöldum í té umrædda skrá ásamt öllum upplýsingum um starfsemi og eignir sem þeim má vera kunnugt um.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri er meðal þeirra er eiga sæti …
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri er meðal þeirra er eiga sæti í hópnum er á að vinna að frekari breytingatillögum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frekari breytingar væntanlegar

Líkt og fram hefur komið er þetta meðal þeirra breytinga sem taldar voru brýnastar en unnið verður að frekari umbótum.

Sérstakur starfshópur mun vinna að frekari tillögum sem eiga að mynda aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn skattaundanskotum og nýtingu skattaskjóla almennt. Má þar nefna BEPS-verkefnið (Base Erosion and Profit Shifting), reglur um þunna eiginfjármögnun og takmörkun á frádrætti vegna arðs frá félögum í lágskattaríki. 

Þunn fjármögnun er þegar fyrirtæki er fjármagnað að mestu eða öllu leyti með lánsfé líkt og rætt hefur verið um í sambandi við starfsemi Alcoa hér á landi.

Frétt mbl.is: Ekkert hægt að gera við Alcoa

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK