Færri gjaldþrot í fasteignageiranum

Á síðustu tólf mánuðum fækkaði gjaldþrotum hlutfallslega mest í fasteignaviðskiptum, …
Á síðustu tólf mánuðum fækkaði gjaldþrotum hlutfallslega mest í fasteignaviðskiptum, úr 97 í 62, eða um 36%. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nýskráningum einkahlutafélaga hefur fjölgað um sextán prósent á liðnu ári og gjaldþrotum félaga hefur fækkað um sex prósent á sama tíma. Nýskráningar voru alls 227 í apríl og gjaldþrotin voru 123.

Hagstofa Íslands greinir frá þessu. Á síðustu tólf mánuðum hafa alls 2.507 einkahlutafélög verið skráð. Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga var mest í fasteignaviðskiptum þar sem þeim fjölgar úr 254 í 404, eða um 59 prósent á síðustu tólf mánuðum.

Meðal annarra greina þar sem nýskráningum hefur fjölgað má nefna leigustarfsemi og ýmsa sérhæfða þjónustu þar sem nýskráningum fjölgaði úr 147 í 227, eða um 54%, og rekstur gististaða og veitingarekstur þar sem fjölgunin var úr 144 í 173 nýskráningar, eða 20%.

Líkt og áður segir voru 123 einkahlutafélög tekin til gjaldþrotaskipta í apríl en á síðastliðnu ári eru gjaldþrotin alls 732 talsins. Hlutfallslega fækkaði gjaldþrotum mest í fasteignaviðskiptum, úr 97 í 62, eða um 36%, en einnig má nefna fækkun gjaldþrota í rekstri gististaða og veitingarekstri úr 65 í 45, eða 31%.

Á síðasta tólf mánaða tímabili hefur gjaldþrotum fjölgað mest í leigustarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu, þar sem þeim fjölgaði úr 33 í 42 frá fyrra tímabili, eða um 27%, en einnig má nefna fjölgun gjaldþrota úr 52 í 59 í fjármála- og vátryggingastarfsemi, eða 13%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK