Fresta umdeildri skattahækkun

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans. AFP

Japönsk hlutabréf hækkuðu í verði í dag eftir að fregnir bárust af því að stjórnvöld þar í landi hafi í hyggju að fresta umdeildri hækkun á söluskattinum um tvö ár. Alls hækkaði Nikkei 225, helsta hlutabréfavísitala landsins, um 1,39%.

Japanskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að vilji Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, stæði til þess að fresta skattahækkuninni til ársins 2019. Hækkunin á að öðru óbreyttu að taka gildi í apríl á næsta ári. Verður skatturinn hækkaður úr 8% í 10% en áður höfðu stjórnvöld hækkað hann úr 5%.

Stjórnvöld áforma að nýta skattféð til þess að greiða niður ríkisskuldir. Hins vegar telja margir hagfræðingar það óskynsamlegt. Brýnna sé að koma í veg fyrir verðhjöðnun í landinu.

Búist er við því að Abe tilkynni opinberlega um áform sín á miðvikudaginn, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Hlutabréf 195 japanskra fyrirtækja, þar á meðal Panasonic, Sony og Sharp, hækkuðu í verði í dag, en bréf í aðeins 23 fyrirtækjum lækkuðu.

Eitt helsta markmið Abe hefur verið að blása lífi í japanskan efnahag sem hefur verið ansi daufur undanfarin ár. Hagvöxtur hefur verið óstöðugur og stutt á milli upp- og niðursveiflna. Var 1,7% hagvöxtur á fyrstu þremur mánuðum ársins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK