Fjórir nýir deildarforsetar

Fjórir nýir deildarforsetar taka sæti í stjórn verkfræði- og náttúruvísindasviðs …
Fjórir nýir deildarforsetar taka sæti í stjórn verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands í sumar. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Mikil endurnýjun verður í stjórn verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands í sumar þegar fjórir nýir deildarforsetar taka sæti í stjórninni.

Forseti sviðsins er Hilmar Bragi Janusson en hann var áður þróunarstjóri Össurar. Auk Hilmars sitja sex deildarforsetar í stjórn sviðsins en sem fyrr segir verður mikil endurnýjun á stjórninni í sumar þegar fjórir nýir deildarforsetar taka til starfa. Deildarforsetar eru kjörnir hver í sinni deild.

Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent í mannvistarlandafræði, verður nýr deildarforseti líf- og umhverfisvísindadeildar. Hún er einn helsti sérfræðingur landsins í náttúrutengdri ferðamennsku og starfar sem formaður í faghópi 2 um ferðaþjónustu, útivist og hlunnindi í 3. áfanga rammaáætlunar.

Kristján Jónasson, prófessor í stærðfræði, verður nýr deildarforseti iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar. Kristján á að baki langan starfsferil við Háskóla Íslands og hefur átt stóran þátt í að gera tölvunarfræði að einni vinsælustu námsgrein skólans, að því er segir í tilkynningu.

Oddur Ingólfsson, prófessor í eðlisefnafræði, verður nýr deildarforseti raunvísindadeildar. Oddur hefur verið virkur í grunnrannsóknum í sameindavísindum, sérstaklega rannsóknum tengdum örtæki, og hefur þar byggt upp viðamikið alþjóðlegt samstarf. Oddur hefur einnig verið virkur í hagnýtingu þekkingar og er einn af stofnendum fyrirtækisins Carbon Recycling International, sem endurnýtir koltvísýrling sem eldsneyti, og fyrirtækisins Lífdísill ehf. sem einbeitir sér að endurnýtingu lífræns úrgangs. 

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, verður deildarforseti jarðvísindadeildar. Magnús Tumi er með þekktari vísindamönnum Háskólans en hróður íslenskra jarðvísindamanna hefur borist út fyrir landsteinana og stuðlað að vaxandi vinsældum jarðvísinda meðal erlendra nemenda sem sækja nám til Íslands.

Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor í samgönguverkfræði, verður áfram deildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar. Guðmundur Freyr er reynslumikill sérfræðingur í rannsóknum á umferðaröryggi og ferðavenjum.

Kristinn Andersen, prófessor í rafmagnsverkfræði, verður jafnframt áfram deildarforseti rafmagns- og tölvunarfræðideildar. Kristinn var í fjölda ára rannsóknarstjóri hjá Marel og hefur byggt upp námskeið á sviði róbótafræða og tölvusjónar við Háskóla Íslands. Viðfangsefni hans í kennslu og rannsóknum eru einkum á sviði hátækni í iðnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK