Skuldir 365 aukast um 34%

Meirihluti eigna 365, eða um 82 prósent, eru óefnislegar eignir.
Meirihluti eigna 365, eða um 82 prósent, eru óefnislegar eignir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gríðarlegur viðsnúningur hefur orðið í rekstri 365 miðla samkvæmt nýbirtum ársreikningi samstæðunnar sem skilaði 22 milljóna króna hagnaði á síðasta ári samanborið við 1,4 milljarða króna tap árið áður. 365 miðlar skuldsettu sig hins vegar mikið á móti.

Félagið leggur ekki til arðgreiðslu til hluthafa vegna síðasta árs.

Handbært fé jókst töluvert milli ára og stóð í 651 milljón króna í lok síðasta árs samanborið við 32 milljónir króna árið áður. Þá eykst verðmæti dagskrárbirgða töluvert og hækkar úr 1,5 milljörðum króna í tvo milljarða.

Meirihluti eigna 365, eða um 82 prósent, eru óefnislegar eignir. Það eru um 6,5 milljarðar af átta milljarða króna heildareignum. Þær dragast lítillega saman milli ára, eða um tólf milljónir króna.

Óefnislegar eignir eru viðskiptavild, samningsbundinn réttur, leyfisgjöld, áskriftarsamningar og hugbúnaður sem félagið hefur keypt. 

Þá færir félagið einnig 703 milljóna króna skattaeign til bókar.

Hjónin Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson.
Hjónin Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Bankaviðskiptin færð og lántökur auknar

Langtímaskuldir 365 aukast um 34 prósent milli ára og nema 4,8 milljörðum króna í lok árs 2015 samnborið við 3,5 milljarða króna árið áður. Samkvæmt þessu eykst greiðslubyrði félagsins á næstu árum umtalsvert, eða um 1,3 milljarða króna. Á þessu ári koma til greiðslu 452 milljónir. 

Síðasta haust fór 365 í útboð með öll bankaviðskipti félagsins en félagið hafði verið hjá Landsbankanum árum saman. Eftir útboðið var ákveðið að ganga til samninga við Arion banka og er bankinn nú viðskiptabanki fyrirtækisins. Í ársreikningnum segir að langtímalán samstæðunnar hafi verið endurfjármögnuð hjá nýja bankanum á síðasta ári og að það hafi leitt til hagstæðari fjárhagsskilyrða. Samhliða því hafa lántökur verið auknar líkt og áður segir.

Í til­kynn­ingu vegna breytinganna á bankaviðskiptum félagsins, sem send var út í nóv­em­ber sl. sagði að útboðið væri liður í því að „und­ir­búa félagið betur fyrir mögu­lega skrán­ingu félags­ins í Kaup­höll Íslands“.

365 miðlar færðu bankaviðskipti sín til Arion banka á síðasta …
365 miðlar færðu bankaviðskipti sín til Arion banka á síðasta ári. mbl.is/Júlíus

Dómsmál gæti haft marktæk áhrif á eiginfjárstöðu

Samkvæmt ársreikningi 365 hefur ekkert verið gjaldfært í rekstrarreikningi vegna óvissu um hvort félaginu hafi verið heimilt að draga vaxtagjöld frá skattskyldum tekjum sínum. Ef dómsmálið tapast má áætla að heildaráhrif á eigið fé samstæðunnar verði um 584 milljónir króna vegna rekstraráranna 2009 til og með árinu 2015.

Þar af eru greiðsluáhrif vegna viðbótarálagningar skatta á grundvelli úrskurðar Yfirskattanefndar um 372 milljónir króna með álagi og dráttarvöxtum. Sú fjárhæð var greidd á árinu 2015 og er hún eignfærð sem skattaeign. 

Í ársreikningnum segir að ef niðurstaða dómstóla verður í samræmi við úrskurð Yfirskattanefndar muni það hafa marktæk áhrif á eiginfjárstöðu félagsins.

365 miðlar eru á lokastigum að undirbúa dómsmál vegna ágreinings …
365 miðlar eru á lokastigum að undirbúa dómsmál vegna ágreinings um skattamál félagsins. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Á lokastigum í undirbúningi dómsmáls

Málið varðar úrskurð Ríkisskattstjóra frá 13. nóvember 2013. Var þá talið að félaginu bæri að greiða viðbótartekjuskatt vegna meintra ófrádráttarbærra vaxtagjalda og nýtingu á yfirfæranlegu tapi rekstrarárin 2009 til 2011.

Málavextir eru þeir að í byrjun nóvember 2008 eignaðist Rauðsól ehf., sem var í eigu Jóns Ásgeirs Jó­hann­es­son­ar, rúmlega 99,9% hlutafjár í 365 miðlum hf. Félögin voru sameinuð undir nafni og kennitölu 365 miðla hf. og miðaðist samruninn við 1. janúar 2009. Málið snýst um hvort félagið geti nýtt sér skattalegt tap sem myndaðist hjá Rauðsól ehf. fyrir sameininguna og einnig hvort vaxtagjöld af lánum Rauðsólar vegna kaupa á 365 miðlum séu frádráttarbær hjá sameinaða félaginu.

Félagið kærði úrskurðinn til Yfirskattanefndar sem hafnaði öllum rökum 365.  

365 er nú á lokastigi í undirbúningi dómsmáls gegn íslenska ríkinu vegna málsins.

Helstu hluthafar

Stærsti hluthafi 365 miðla hf. er félagið Moon Capital S.á.r.l., sem á 56,4 prósent hlut, en það er fé­lag Ingi­bjarg­ar Stef­an­íu Pálmadóttur í Lúx­em­borg. Þá á félagið ML 102 ehf. 15,8 prósent hlut, en það er skráð dótt­ur­fé­lag Moon Capital S.á.r.l. hjá Cred­it­in­fo.

Auður fagfjárfestasjóður á þá 15,8 prósent hlut og félagið Apogee ehf. á 12,28 prósent hlut. Apogee er einnig í eigu Moon Capital.

Ekki náðist í Sævar Frey Þráinsson, framkvæmdastjóra 365 miðla, við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK