„Stundin fer með gamalt fleipur“

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. mbl.is/RAX

Björgólfur Thor Björgólfsson kaupsýslumaður segir að stundin fari með fleipur í umfjöllun um hann og föður hans, Björgólf Guðmundsson, í dag.

Stundin segir að gögn frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca varpi ljósi á ótrúlega umfangsmikil viðskipti feðganna í skattaskjólum fyrir og eftir hrun.

Er því haldið fram, að feðgarnir séu tengdir meira en 50 félögum. Þá er m.a. sagt frá óþekktri lánveitingu upp á 3,6 milljarða til Tortólafélags og bent á að næröll fyrirtæki Björgólfs Thors eru beint eða óbeint í skattaskjóli.

Björgólfur svarar umfjölluninni með pistli á heimasíðu sinni.

Hann segir að Stundin fari með himinskautum í dag þegar blaðamenn dragi þær ályktanir af svokölluðum Panamaskjölum.

„Svo virðist sem Stundin telji Panamaskjölin fullnægjandi til að rekja sig eftir flóknum viðskiptum og draga af þeim ályktanir. Samkvæmnin er þó ekki meiri en svo, að á einum stað fullyrðir Stundin að stórar fjárhæðir hafi einhvern veginn gufað upp, viðurkennir í næsta orði að ekki hafi tekist að rekja þá slóð sem blaðið taldi sig vera á og loks að það sé „ógerlegt að fullyrða nokkuð um hvaða eignir voru inni í þeim félögum“ sem fjallað er um.  Stundin fer með gamalt fleipur og villir um fyrir lesendum sínum. Ég hef fyrir löngu gert öll mín mál upp við kröfuhafa,“ skrifar Björgólfur.

Hann segir enn fremur, að vegna þess hluta umfjöllunarinnar sem að honum snúi vilji hann ítreka örfá atriði „en að öðru leyti nenni ég ekki að elta ólar við söguheim Stundarinnar,“ skrifar Björgólfur og bætir við eftirfarandi:

  1. Ég var vissulega í miklum og alþjóðlegum lánaviðskiptum, þar á meðal við Landsbankann í Lúxemborg eins og nefnt er í greininni. Eignir mínar og innistæður voru að sama skapi mjög miklar. Lán mín við bankann voru öll gerð upp.
  2. Í tengslum við skuldauppgjör mitt fór fram mjög ítarleg rannsókn á fjármálum mínum. 100 manna her lögfræðinga, endurskoðenda og annarra sérfræðinga fór yfir öll gögn um mig og öll félög mín.  Þær upplýsingar voru miklu ítarlegri en finna má í Panamaskjölunum einum, enda veittur frjáls aðgangur að öllum bankareikningum, bókhaldi, stjórnendum allra viðkomandi fyrirtækja sem og ráðgjöfum.  Hugleiðingar um að einhverju hafi verið haldið undan eru bæði ósmekklegar og meiðandi, fyrir utan þá kokhreysti blaðamanna Stundarinnar að telja sig hafa fundið það sem þessum sérfræðihópi á vegum kröfuhafa minna á að hafa yfirsést.  Hvað varðar félagið Ranpod sérstaklega þá lágu upplýsingar um það félag fyrir við rannsókn á fjármálum mínum.
  3. Enn ganga svo aftur vangaveltur um að réttast hefði verið að við feðgar værum skráðir sem fjárhagslega tengdir aðilar hjá fjármálastofnunum. Slík skráning hefur ekkert með fjölskyldutengsl að gera. Við vorum ekki og erum ekki fjárhagslega  tengdir sem sést best á því að faðir minn varð gjaldþrota en ég ekki.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK