Súkkulaðiáhuginn vaknaði í Versló

Mikið er lagt upp úr hönnun á sælgætinu og umbúðum …
Mikið er lagt upp úr hönnun á sælgætinu og umbúðum þess.

Vinahópur sem kynntist í Verzlunarskóla Íslands er kominn áfram í frumkvöðlakeppninni Startup Reykjavík með súkkulaði sem nefnist Moon Chocolate. Mikið er lagt upp úr hönnun og fékk hópurinn aðstoð frá súkkulaðiframleiðandanum Omnom við fyrstu skrefin.

Líkt og mbl greindi frá á dögunum hafa tíu teymi verið valin til þátttöku í viðskiptahraðlinum Startup Reykjavík. Áhuginn á frumkvöðlastarfi virðist mikill um þessar mundir þar sem 250 teymi sóttu um að komast að. Úr stórum hópi var því að velja en teymin tíu fá aðstöðu og leiðsögn í tíu vikur og mun Arion banki veita 2,4 milljóna króna fjárfestingu til sigurvegarans.

Hópurinn er stendur að Moon Chocolate.
Hópurinn er stendur að Moon Chocolate.

Fara með súkkulaðið til Sviss

Moon Chocolate er eitt af teymunum tíu en þau framleiða hágæðasúkkulaði sem búið er til frá grunni úr tans­an­ísk­um kakóbaun­um. Hópurinn kom upphaflega saman í fyrirtækjaáfanga í Versló og fóru þau síðan með sigur af hólmi í frumkvöðlakeppninni Juni­or Achievement á Íslandi þar sem fimmtán „nemendafyrirtæki“ frá menntaskólum landsins tóku þátt.

Í kjölfar sigursins mun Moon Cocolate taka þátt í alþjóðlegri Juni­or Achievement sem haldin verður í Sviss í sumar. Þau útskrifuðust öll úr Versló í vor en ætla að fresta háskólanámi til að einbeita sér að Startup Reykjavík og litla fyrirtækinu sínu í haust.

Omnom bauð þeim aðstöðu

Áshildur segir hópinn hafa byrjað á því að panta baunirnar frá tansanísku fyrirtæki er nefnist Kokoa Kamili, en það leggur mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð líkt og Moon Chocolate hyggst gera. „Við viljum sýna ábyrgð og notum til dæmis aðeins umhverfisvænar umbúðir,“ segir Áshildur, sem sér um hönnunina á þeim.

Næst hafði hópurinn samband við íslenska súkkulaðiframleiðandann Omnom sem hefur notið mikillar velgengni með sína vöru til að leita eftir ráðgjöf. „Þeir tóku ótrúlega vel í það og tóku okkur í rauninni fagnandi,“ segir Áshildur og bendir á að það hafi komið hópnum skemmtilega á óvart í ljósi þess að fyrirtækið ætti í rauninni að vera samkeppnisaðili á þessum anga súkkulaðimarkaðsins. „Við settum okkur í samband við þá vegna þess að við vildum bara ræða málin en þeir buðu okkur í heimsókn, sýndu okkur allt ferlið og buðu okkur síðan að nota aðstöðuna hjá sér,“ segir Áshildur.

Moon Chocolate tók boðinu og var súkkulaðið upphaflega framleitt hjá Omnom. Nú er hópurinn hins vegar kominn með eigin aðstöðu og stefnt er á frekari þróun.

Súkkulaðið er til í fjórum bragðtegundum.
Súkkulaðið er til í fjórum bragðtegundum.

Konfekt, páskaegg og veisluþjónusta

Í dag eru bragðtegundirnar fjórar en Áshildur segir þrjár til viðbótar vera í þróun. Þá er framtíðarhugsunin að búa til konfekt, páskaegg og vörur fyrir veisluþjónustu sem hægt væri að sníða að þörfum viðskiptavina.

Ekkert þeirra er menntað í súkkulaðigerð en Áshildur segir áhugann hafa komið þeim langt. Hafa þau þróað núverandi bragðtegundir samkvæmt eigin bragðskyni og telur hún vel hafa tekist til. Spurð um súkkulaðiáhugann segir Áshildur að hann hafi vissulega verið áður til staðar. Hins vegar hafi áhuginn komist á annað stig þegar „þau kynntust súkkulaðiheiminum,“ líkt og Áshildur segir. 

Auk Áshildar eru í hópnum Unnur Svala Vilhjálmsdóttir, Sveinn Ólafur Lúðvíksson, Jórunn María Þorsteinsdóttir og Lára Borg Lárusdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK