Aukinn áhugi á stærri eignum

Magnús Árni segir eldri hópa í auknum mæli horfa til …
Magnús Árni segir eldri hópa í auknum mæli horfa til að selja stærri eignir, en að vegna aukins kaupmáttar, leiðréttingarinnar og viðbótarlífeyrissparnaðar sem nota megi til að greiða inn á húsnæðislán, sé ungt fólk og fólk á miðjum aldri í auknum mæli að stækka við sig. mbl.is/Sigurður Bogi

Aukinn áhugi er á sérbýlum og ljóst er að fólk hefur nú meiri fjárráð til að fjárfesta í dýrari eignum. Þetta veldur því að verð á sérbýlum mun áfram hækka á komandi misserum, jafnvel þótt stór hópur eldra fólks sé að horfa til hreyfingar eftir talsvert litla hreyfingu á þessum markaði frá hruni. Þetta segir Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá Reykjavík economics, í samtali við mbl.is, en fyrr í dag var skýrsla sem fyrirtækið vann fyrir Íslandsbanka um fasteignamarkaðinn kynnt.

Magnús segir að félagið hafi ákveðið að horfa nánar á sérbýlishluta fasteignamarkaðarins í ár, en þetta er fimmta árið sem það gerir skýrsluna fyrir Íslandsbanka. Áður hefur meðal annars verið horft til fyrstu kaupenda.

Undanfarin ár hafa að sögn Magnúsar verið nokkuð þunn fyrir sérbýlismarkaðinn. Þar hafi spilað stóra rullu að margir hafi verið í eiginfjárvanda. Nú hafi kaupmáttur aftur á móti aukist og þá segir hann ekki ólíklegt að leiðrétting ríkisstjórnarinnar og séreignasparnaður sem hægt sé að nýta til íbúðakaupa hafi hjálpað talsvert til við að lífga upp á þennan hluta markaðarins.

Eldri hópar hafa að sögn Magnúsar verið ósáttir við það verð sem fékkst fyrir stærri eignir. Segir hann þennan hóp, sem hafi verið fastur í stærri eignum, því nú hugsa sér til hreyfinga. Til viðbótar við það megi greina lífsstílsbreytingu þar sem stærri hluti fólks vill frekar búa í minna húsnæði og hafa meira milli handanna. Þá hafi einnig minni frjósemi og þar af leiðandi færri börn á hverja fjölskyldu þau áhrif að fólk telji sig ekki þurfa að stækka við sig.

Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá Reykjavík Economics.
Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá Reykjavík Economics. mbl.is/Ómar

Þrátt fyrir þetta séu stórir hópar ungs fólks og fólks á miðjum aldri sem vilji stærra húsnæði með stækkandi fjölskyldu. „Fólk hefur núna meira efni á því að stækka við sig,“ segir Magnús og eftir að sérbýlismarkaðurinn fór að hreyfa sig af alvöru á síðasta ári segir hann að aukið framboð sé í pípunum sem komi á markað innan 12–24 mánaða.

„Við teljum að sérbýli haldi áfram að hækka á næstunni, en eftirspurnin verður einnig áfram meiri,“ segir Magnús. Bendir hann á að Íslendingum sé að fjölga til viðbótar við að talsverður fólksflutningur sé til landsins.

Í skýrslunni er kafað ofan í verðbreytingar á milli hverfa og segir Magnús að þróunin sé sú að ungt fólk dreifist meira um höfuðborgarsvæðið. Það sé að fara í hverfi þar sem er meira um ódýrari eignir sem það hefur efni á. Það valdi dreifðari hækkun íbúðaverðs en bara í miðbæ Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK