Útborgun eftir mikla uppbyggingu

Stjórnendur Pizza-Pizza hafa unnið hörðum höndum að uppbyggingu félagsins á …
Stjórnendur Pizza-Pizza hafa unnið hörðum höndum að uppbyggingu félagsins á síðustu árum. Mynd af Facebook-síðu Domino's

Fjórir milljarðar, sem breska Domino's greiddi fyrir minnihluta í íslensku og norrænu systurfélagi, renna að hluta til beint í vasa eiganda en restin fer í vöxt og uppbyggingu erlendis. „Það er dýrt að koma upp nýjum búðum en þetta gerir okkur kleift að fara úr öðrum gír og upp í þann fjórða,“ segir Birgir Örn Birg­is­son, fram­kvæmda­stjóri Domino's Pizza á Íslandi.

Domino's hér á landi er rekið í gegnum félagið Pizza-Pizza ehf. en starfsemin í Noregi og Svíþjóð er í dótturfélaginu Pizza Pizza Norway, sem Pizza-Pizza ehf. á 60% hlut í. 

Samstæðan hefur ekki skilað ársreikningi fyrir síðasta ár en í upphafi ársins 2015 keypti framtakssjóðurinn EDDA, sem rekinn er af Virðingu, og er í eigu líf­eyr­is­sjóða og ann­arra fag­fjár­festa, fjórð­ungs­hlut í félaginu. Aðrir eig­endur Pizza-Pizza ehf. eru Birgir Þ. Bielt­vedt, stjórn­ar­for­maður félags­ins, og eig­in­kona hans, Eygló Björk Kjart­ans­dótt­ir, Högni Sig­urðs­son, Birgir Örn Birg­is­son fram­kvæmda­stjóri og nokkrir aðrir lyk­il­stjórn­endur.

Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2014 námu alls 3,9 milljörðum króna og hagnaðurinn hljóðaði upp á 157 milljónir króna. 

32 staðir á þessu ári

Rekstur Domino's í Noregi og Svíþjóð er líkt og áður segir í norska félaginu en til stendur að færa sænska reksturinn yfir í sérstakt félag þegar starfsemin er hafin. Stefnt er að því að opna tvo pitsustaði þar í landi á þessu ári en staðirnir í Noregi eru þegar orðnir tíu talsins.

Að meðtöldum nýja staðnum sem Domino's ætlar að opna í Hafnarfirði síðar í þessum mánuði verða staðirnir á Íslandi alls tuttugu. Má því gera ráð fyrir að hópurinn eigi alls 32 Domino's-staði síðar á þessu ári.

Birgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri Domino'‘s á Íslandi, Hannes Frímann Hrólfsson, …
Birgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri Domino'‘s á Íslandi, Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar, og Baldur Már Helgason, sjóðsstjóri framtakssjóða Virðingar, þegar EDDA keypti fjórðungshlut í fyrirtækinu í fyrra.

Góð ávöxtun fyrir fjárfesta

Líkt og fram hefur komið keypti Dom­in­o's Pizza Group, sem er stærsta pitsu­keðja Bret­lands, 49% hlut í íslenska félaginu og 45% í norsku og sænsku starfseminni.

Frétt mbl.is: Breska Domino's fjárfestir í Domino's á Íslandi

Birgir segir að ekki hafi verið þörf fyrir mikla innspýtingu í starfsemina á Íslandi. Fyrrgreindi hluturinn rennur því til íslenskra og norskra hluthafa en sá síðarnefndi fer í frekari uppbyggingu.

Birgir segir ánægjulegt að fjárfestar séu að fá góða ávöxtun og bendir til dæmis á að margir hafi á síðasta ári sett spurningarmerki við að lífeyrissjóður væri að kaupa hlut í skyndibitakeðju. Það virðist hins vegar vera að skila sér í dag.

Vilja 300 búðir

Spurður um framhaldið segir Birgir það hafa ekki verið kortlagt að fullu. Hins vegar er markmiðið að koma upp um 300 búðum samanlagt í Noregi og Svíþjóð. Heildarkostnaðurinn við hverja nýja einingu er á bilinu 40 til 50 milljónir króna.

„Þeir eru að koma inn með gríðarlegan styrk, peningalegan og þekkingarlegan, og þannig getum við spýtt í lófana og farið mun hraðar yfir en við höfum hingað til verið að gera,“ segir hann.

Birgir segir það alltaf hafa legið fyrir að þörf væri á fjárfestum til að styðja við uppbygginguna erlendis. „Við vorum jafnvel að velta fyrir okkur að fá tvo aðila að verkefninu í fleiri skrefum en þeir virðast nógu stórir og sterkir til að taka þetta alla leið,“ segir hann.

Líkt og áður segir stendur til að fjölga stöðunum Noregi og hefja uppbyggingu í Svíþjóð. Þar verður hins vegar ekki látið staðar numið heldur stendur til að komast inn á fleiri markaði. Birgir segist þó ekki geta tjáð sig nánar um það að svo stöddu.

Gott tækifæri fyrir starfsfólk

„Stóra málið í þessu öllu saman er að þetta er frábær viðurkenning fyrir starfsfólkið okkar,“ segir Birgir og bætir við að forsvarsmenn breska Domino's hafi komið hingað til lands til að ræða við starfsmenn og skoða gæðin.

Þá segir hann að í uppbyggingunni felist gott tækifæri fyrir starfsfólk til að fara út í heim og bendir hann á að núverandi forstjóri og rekstrarstjóri í Noregi séu Íslendingar auk þess sem Íslendingur hafi verið ráðinn í starf rekstrarstjóra í Svíþjóð. „Við erum nokkurs konar útungunarstöð hérna heima,“ segir Birgir léttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK