Vaxandi misskipting auðs í Evrópu

James K. Galbraith á fundinum í gær.
James K. Galbraith á fundinum í gær. mbl.is/Eggert

Misskipting auðs er mikil á milli Suður- og Norður-Evrópu og hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Innan einstakra Evrópuríkja ríkir eflaust þó nokkur tekjujöfnuður en bilið á milli fátæku og ríku þjóða álfunnar mun áfram vaxa ef fram fer sem horfir. Á meðan standa evrópskir ráðamenn ráðalausir.

Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli James K. Galbraith, hagfræðiprófessors við Háskólann í Texas í Austin á hádegisfundi á vegum hagfræðideildar Háskóla Íslands og Samtaka sparifjáreigenda í hátíðarsal Háskóla Íslands í gær.

Galbraith benti á að þróunin í Evrópu og Bandaríkjunum hefði verið nokkuð ólík. Vissulega hefði tekjuójöfnuður aukist beggja megin Atlantshafsins en í Bandaríkjunum hefði þó ójöfnuður, ef eitthvað er, minnkað á milli ríkja. Þegar horft væri á Evrópu í heild sinni, í stað þess að einblína á einstök ríki álfunnar, kæmi raunar í ljós að misskiptingin væri meiri þar en í Bandaríkjunum.

Hann sagði að tekjujöfnuður í ríkjum í norðurhluta Evrópu væri nokkuð mikill, en að munurinn á norður- og suðurhluta álfunnar væri hins vegar gríðarlegar. Þar væri stórt gap sem væri stærra en til að mynda gapið á milli norður- og suðurhluta Bandaríkjanna.

Þetta sýndi í raun við hvaða vanda Evrópusambandið ætti við að glíma um þessar mundir. Í Evrópu væri ekki fyrir hendi neitt skilvirkt gangverk sem gerði fátæku þjóðum álfunnar kleift að bæta stöðu sína gagnvart ríkari þjóðunum. Raunin væri hins vegar önnur í Bandaríkjunum. Þar væri til að mynda til staðar velferðarkerfi og ýmis önnur umbótakerfi sem miðuðu sérstaklega að því að hjálpa fátækustu ríkjunum.

Meiri jöfnuður í ríkum þjóðum

Hann útskýrði að samkvæmt rannsóknum sínum ríkti meiri tekjujöfnuður í ríkum þjóðum en fátækum. Ástæðan væri sú að í ríkustu þjóðunum mætti finna stóra millistétt. Hún drægi verulega úr ójöfnuði. Reyndar væru nú ýmis merki um að millistéttin í Bandaríkjunum og öðrum auðugum þjóðum færi minnkandi. Hún væri undir miklu álagi og ætti í harðri baráttu við að halda stöðu sinni.

Fundurinn var vel sóttur.
Fundurinn var vel sóttur. mbl.is/Eggert

Fram kom í máli hagfræðiprófessorsins að aukinn tekjuójöfnuður væri knúinn áfram af fjármálageiranum. Beint samband væri á milli stærð fjármálakerfisins og ójöfnuðar á alþjóðavísu. Nóg væri að líta til þeirra svæða í heiminum þar sem ójöfnuður væri að aukast. Þar færi fjármálakerfið stækkandi. Hann benti á að lánsfjárbóla hefði tilhneigingu til þess að auka hagvöxt og um leið yrðu bankamenn mun ríkari. Hann hefði sérstaklega tekið eftir því að misskipting tekna í Bandaríkjunum hefði aukist samhliða tæknibólunni um síðustu aldamót og aftur í góðærinu um miðjan síðasta áratug.

Þá sagði Galbraith að stórir atburðir í sögunni sem vörðuðu heimshagkerfið í heild sinni hefðu greinilega haft mikil áhrif á tekjuójöfnuð. Þar munaði fyrst og fremst um breytingar á fjármálakerfi heimsins, svo sem endalok Bretton Woods-kerfisins árið 1971, skuldakreppuna á sjöunda áratug síðustu aldar og tæknibóluna rétt fyrir síðustu aldamót. Þessir markverðu atburðir hefðu haft áhrif á ójöfnuð um allan heim á ólíkan hátt.

Eins og horfa á gras vaxa

Galbraith sagði að hagfræðingar hefðu fyrir nokkrum áratugum haft lítinn áhuga á því að rannsaka tekjudreifingu og ójöfnuð í samfélögum. Kennararnir hans í háskóla sögðu við hann að það væri eins og horfa á gras vaxa að fylgjast með þróun tekjudreifingar – það væri ekki áhugavert viðfangsefni.

Einnig hefði það verið viðtekin skoðun að aukinn tekjuójöfnuður væri bein afleiðing af tæknibyltingunni og því væri ekkert hægt að gera við því. Galbraith þótti sláandi hve mikið og hratt dreifing tekna breyttist á skömmum tíma og ákvað hann að rannsaka það sjálfur með teymi sínu. Í dag er hann einn helsti frumkvöðull heims í rannsóknum á skiptingu auðs og tekna og hefur skrifað fjölmargar bækur um málið.

Frétt mbl.is: Segir grísku þjóðina niðurlægða

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK