Verðbólga verði áfram undir markmiði

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ernir

Enginn nefndarmaður peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands taldi ástæðu til að breyta vöxtum að sinni á síðasta fundi nefndarinnar. Nefndin var jafnframt sammála um að alþjóðleg verðlagsþróun og sterkari króna hefðu veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í fundargerð nefndarinnar sem birt var í dag. Már Guðmundsson seðlabankastjóri lagði til á fundinum að vextir bankans yrðu óbreyttir. Meginvextir bankans, þ.e. vextir á sjö daga bundnum innlánum, yrðu 5,75%, innlánsvextir (vextir á viðskiptareikningum) 5,5%, vextir af lánum gegn veði til sjö daga 6,5% og daglánavextir 7,5%. Allir nefndarmenn studdu tillögu hans.

Fram kemur í fundargerðinni að nefndin hafi talið vísbendingar vera um að peningastefnan hafi skapað verðbólguvæntingum traustari kjölfestu en áður og stuðlað að því að verðbólga hefur aukist minna en vænta mátti í kjölfar mikilla launahækkana.

Það breytti því hins vegar ekki að mati nefndarmanna að miðað við spá Seðlabankans frá fyrri hluta maímánaðar væri líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist réðist af framvindunni.

Útlit fyrir öran hagvöxt

Að mati nefndarinnar bentu flestar nýjar vísbendingar til þess að áfram væri útlit fyrir öran hagvöxt en nefndarmenn voru jafnframt sammála um að nýjar upplýsingar af vinnumarkaði sýndu að þar gætti vaxandi spennu. Á hinn bóginn væri verðbólga lítil, vöxtur útlána hægur og sakir hagstæðrar skuldastöðu og útlits fyrir áframhaldandi viðskiptaafgang kynni þrýstings til hækkunar á gengi krónu að gæta áfram.

Verðbólga mældist 1,7% í maí, svipuð og hún var fyrir ári, og hefur haldist undir markmiði um ríflega tveggja ára skeið. Eins og á undanförnum fundum ræddi nefndin ástæður þess að verðbólga er enn vel undir verðbólgumarkmiði þrátt fyrir miklar launahækkanir og vaxandi framleiðsluspennu. Nefndarmenn voru sem fyrr sammála um að það skýrðist helst af því að gengishækkun krónunnar, lækkun olíu- og annars hrávöruverðs, mjög lítil verðbólga í helstu viðskiptalöndum og viðskiptakjarabati hefði hingað til nægt til að vega á móti.

Nefndarmenn voru einnig sammála því mati sem felst í síðustu spá Seðlabankans, sem birtist í Peningamálum 2016/2 í maí, um að útlit væri fyrir, að öðru óbreyttu, að verðbólga yrði undir markmiði fram eftir ári og myndi aukast þegar innflutningsverðlag hætti að lækka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK