Bætir umgjörð nýsköpunar

Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður stefnumótunar og nýsköpunar hjá Samtökum iðnaðarins.
Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður stefnumótunar og nýsköpunar hjá Samtökum iðnaðarins. Ljósmynd/Samtök iðnaðarins

Fólk í atvinnulífinu hefur lengi bent á ýmsa annmarka í umhverfi fjármögnunar og skattlagningu sprotafyrirtækja. Regluverk annarra landa hefur ýmsa kosti sem ekki hefur verið til að dreifa á Íslandi. Að sögn Davíðs Lúðvíkssonar var tekið stórt framfaraskref með nýsamþykktu frumvarpi sem gerir breytingar á „ýmsum lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti,“ eins það er orðað í lagatextanum.

Davíð er forstöðumaður stefnumótunar og nýsköpunar hjá Samtökum iðnaðarins og segir hann að breytingarnar snúi einkum að fjórum þáttum.

Geta dregið frá hluta fjárfestingar

„Fyrst má nefna að einstaklingar fá nú heimild til að draga frá skattskyldum tekjum sínum hluta af fjárfestingu í fyrirtækjum sem uppfylla tiltekin skilyrði og eru á lista RSK. „Þetta er ekki ósvipað frádráttarheimild sem fest var í lög þegar verið var að byggja upp íslenska hlutabréfamarkaðinn á sínum tíma. Einstaklingurinn fær heimild til að draga frá skattskyldum tekjum sínum 50% af fjárfestingu að upphæð allt að 10 milljónir króna. Það samsvarar rúmlega 23% endurgreiðslu í gegnum skattkerfið af þeirri fjárhæð sem fjárfest er fyrir, miðað við hæsta skattþrep.“

Fyrirtækið sem fjárfest er í má þó ekki hafa fleiri en 25 starfsmenn, né hafa veltu yfir 650 milljónum kr. á síðasta rekstrarári. Þá eru ákveðnar atvinnugreinar t.d. kvikmyndagerð, undanskildar án þess þó að gerð sé bein krafa um tiltekna nýsköpunarvirkni í þeim fyrirtækjum sem geta nýtt sér lögin. Krafa er gerð til fjárfestis um að hann sé; ekki tengdur félaginu með meira en 30% eignarhlut, viðskiptahagsmunum, stjórnarsetu og ekki starfsmaður eða með fjölskyldutengsl við framgreinda aðila. „Þetta gerir lögin þrengri en æskilegt er, enda mjög algengt að t.d. ættingjar leggi sprotafyrirtækjum lið með fjárfestingu. Þessar takmarkanir eru langt umfram það sem ESA og ESB leggja til,“ segir Davíð sem segist þó vona að hægt verði að „sníða slíka agnúa af þessu annars góða kerfi við fyrsta tækifæri“.

Hærri frádráttur vegna rannsókna

Annað atriði í nýju lögunum er hækkun á stofni frádráttar fyrirtækja vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Hámark stofnsins var áður 100 milljónir, en 150 milljónir ef fyrirtækið á í samvinnu við stofnun, s.s. háskóla eða sjúkrahús. „Þessu kerfi var komið á 2009 að norskri fyrirmynd og geta fyrirtæki í öllum atvinnugreinum nýtt það, séu þau með þróunarverkefni sem uppfylla tilteknar kröfur sem Rannís staðfestir. Nýja hámarkið er 300 og 450 milljónir með samstarfi. Endurgreiðslan getur numið allt að 20% af stofninum eða 60 til 90 milljónum. Uppgjörið fer fram í gegnum skattkerfið, en ef skattar af rekstrinum eru lægri en sem nemur endurgreiðslunni, er mismunurinn greiddur beint til fyrirtækisins,“ útskýrir Davíð.

„Í okkar umsögn um þessa breytingu lögðum við til að afnema umrædd þök alveg og hækka endurgreiðsluhlutfallið til minni fyrirtækja í 25% til samræmis við sambærilegt fyrirkomulag í kvikmyndaiðnaði. Þetta myndi auka aðdráttarafl Íslands bæði fyrir stærri og smærri fyrirtæki í nýsköpun allverulega og um leið auka tekjur ríkissjóðs. Það má ekki gleyma því að endurgreiðsla rannsóknar- og þróunarkostnaðar og skattalegir hvatar vegna fjárfestinga í hlutabréfum fela í sér mjög jákvætt greiðsluflæði fyrir ríkissjóð og útgjöldin eru mun minni en tekjurnar auk þess að falla mun seinna til.“

Þriðja stóra breytingin er að erlendur sérfræðingur með þekkingu sem ekki er fyrir hendi hér á landi nema í litlum mæli fær að draga frá 25% af skattskyldum tekjum fyrstu þrjú árin frá ráðningu að uppfylltum tilteknum skilyrðum. „Þetta er hugsað til að skapa svigrúm til að geta boðið erlendum sérfræðingum sambærileg kjör og í boði eru í samkeppnislöndum okkar,“ segir Davíð. „Ísland hefur ekki verið nógu vel í stakk búið til að laða hingað toppfólkið í vísinda- og tæknigreinum. Slík lagaheimild þekkist víða annars staðar og byggir á þeirri hugmyndafræði að með fólkinu sem tekst að laða til landsins komi ný þekking inn í hagkerfið og leiði af sér nýja verðmætasköpun.“

Breytileg skuldabréf orðin valkostur

Síðast en ekki síst eru gerðar ýmsar breytingar á skattalegri meðferð kaupréttarsamninga og skattlagningu breytanlegra skuldabréfa sem breytt hefur verið í hlutabréf. „Núna fer skattlagning ekki fram fyrr en við sölu hlutabréfanna og eru þá tekjurnar skattlagðar sem fjármagnstekjur hafi starfsmaðurinn átt bréfin í tiltekinn árafjölda. Áður voru reglurnar þannig að þegar t.d. starfsmenn nýttu sér kauprétt þá urðu þeir að greiða strax tekjuskatt af muninum á kaupverði og markaðsverði,“ segir Davíð. „Þetta gat m.a. leitt til þess að fólk gat ekki nýtt kaupréttinn ef það vildi eiga bréfin vegna þess t.d. að hafa ekki efni á skattgreiðslunum af bréfum, sem jafnvel gátu svo verið orðin verðlítil eða verðlaus þegar þau loks voru seld.“

Þessar breytingar opna fyrir þann möguleika að fjármagna sprota með breytilegum skuldabréfum. Breytileg skuldabréf eru algeng fjármögnunaraðferð í mörgum löndum, en þar leggur fjárfestir sprota til fjármagn sem síðan er breytt í hlutafé seinna meir, með ákveðnum margföldunarstuðli eða á ákveðnu markaðsgengi. „Lögin leyfðu þessa fjármögnun, en í reynd var hún skattalega séð útilokuð því um leið og láninu var breytt í hlutabréf varð til hár skattareikningur.“

Ágætis byrjun en þörf á meiru

Að sögn Davíðs voru ýmsar tillögur fulltrúa atvinnulífsins sem ekki rötuðu í frumvarpið. Vantar til dæmis að sprotar geti greitt starfsmönnum sínum laun í formi eignarhluta, þó ekki væri nema upp að tilteknu marki. „Það myndi meðal annars losa frumkvöðla úr þeim skattalega skollaleik sem fylgir því að vinna baki brotnu í uppbyggingu fyrirtækja sinna en geta hvergi gefið upp laun í samræmi við vinnuframlagið, en lenda svo í þeim sporum að geta ekki sýnt nýjum hluthöfum svart á hvítu þann kostnað og virði sem liggur í fyrirtækinu.“

Davíð hrósar stjórnvöldum og Alþingi fyrir að hafa náð að koma þessum breytingum í gegn fyrir þinghlé og að þær séu nauðsynlegar til að halda í við þróun og harða samkeppni frá nærliggjandi löndum. „Við erum með þessu að stíga stærri skerf í að jafna samkeppnistöðu fólks og fyrirtækja í nýsköpun hér á landi en við höfum séð áður og erum nú komin með góðan grunn, sem þó þarf vissulega að straumlínulaga enn betur. Við vonum að það verði áberandi stefnumál í næstu kosningum því við þurfum í framtíðinni að tryggja áhugaverð og vel launuð störf fyrir ungt og menntað fólk hér á landi. Það eru líka óteljandi þarfir og viðfangsefni á sviði heilbrigðis-, mennta-, orku- og umhvefismála sem við getum leyst í góðu samstarfi stjórnvalda og fyrirtækja á grunni þekkingar og tækni. Okkar samkeppnisforskot í starfsumhverfinu á Íslandi getur meðal annars legið í því að vera með kerfi sem er skilvirkara og einfaldara en í öðrum löndum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK