Niðurstaðan ekki endilega vonbrigði

Hagfræðingur hjá Arion banka segir að Seðlabankanum hafi tekist að …
Hagfræðingur hjá Arion banka segir að Seðlabankanum hafi tekist að búa svo um hnútana að hægt sé að losa um höft á almenning, fyrirtæki og lífeyrissjóði. Peningaseðlar Íslenskir Dollarar og Bresk pund mbl.is/Árni Sæberg

Hrafn Steinarsson, hagfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, segist ekki líta svo á að niðurstaða aflandskrónuútboðsins hafi verið vonbrigði. Seðlabankanum hafi nú tekist að búa svo um hnútana að hægt er að losa um höft á heimili, fyrirtæki og lífeyrissjóði. Þeir sem ekki tóku þátt í útboðinu fari einfaldlega aftast í röðina.

Í útboðinu samþykkti Seðlabankinn tilboð í aflandskrónueignir upp á rúmlega 72 milljarða króna af tæplega 178 milljörðum króna sem boðnir voru.

Eigendur aflandskróna að fjárhæð tæplega 320 milljarða gátu tekið þátt í útboðinu.

Ákveðið var að taka öllum tilboðum sem bárust á genginu 190 krónur á hverja evru eða lægra.

Hrafn segir að miðað við yfirlýsingar stærstu aflandskrónueigendanna fyrir útboðið komi það ekki endilega á óvart hve lítil þátttakan var í útboðinu sjálfu. Dræm þátttaka sé heldur ekki til marks um að niðurstaða útboðsins hafi verið vonbrigði.

Fara aftast í röðina

„Seðlabankinn leggur þetta þannig upp að nú hefur Alþingi samþykkt lög um aflandskrónur sem skilgreinir betur hvaða fjármálaeignir teljast vera aflandskrónueignir. Laust fé mun fara inn á sérstaka höfuðbók sem er lokuð af og það sama á við um skuldabréf sem falla til á gjalddaga, það fer inn á læsta höfuðbók með litla sem enga vexti. Það má því segja að það sé búið að girða af þær aflandskrónur, þá snjóhengju, sem eftir standa,“ segir Hrafn.

Hrafn Steinarsson hjá greiningardeild Arion banka.
Hrafn Steinarsson hjá greiningardeild Arion banka. mbl.is/Kristinn

Um hafi verið að ræða síðasta gjaldeyrisútboð bankans, þannig að næsta skref er, eins og lagt var upp með, að losa um fjármagnshöft á heimili, fyrirtæki og lífeyrissjóði. „Það er það sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri á við þegar hann segir að þessir aðilar, þ.e. þeir aflandskrónueigendur sem ekki tóku þátt í útboðinu, fari nú aftast í röðina. Stjórnvöld munu fyrst losa um höft á öllum öðrum nema þeim. Aflandskrónur þeirra verða lokaðar inni þar til seinna, þegar röðin kemur að þeim,“ nefnir Hrafn.

Útboðsgengið alltaf matsatriði

Hann segir það matsatriði hvort Seðlabankinn hafi átt að bjóða aflandskrónueigendum lægra gengi. „Gjaldeyrisforði Seðlabankans er orðinn nokkuð sterkur: hreinn forði er í kringum 450 milljarða króna og maður hefði haldið að bankinn hefði burði til þess að bjóða lægra gengi. En þetta er matsatriði og ég trúi því að bankinn hafi sterk rök fyrir því að velja þetta gengi, 190 krónur, og draga línuna þar.“

Sama hvar bankinn drægi línuna, þá yrði ávallt einhver lagaleg óvissa. Það væri ekkert nýtt af nálinni sem þetta útboð eitt og sér ylli.

Ákveðið var að taka öllum tilboðum sem bárust á genginu …
Ákveðið var að taka öllum tilboðum sem bárust á genginu 190 krónur á hverja evru eða lægra. mbl.is/Árni Sæberg

Gjaldeyrisforðinn nægilega stór

Fram kom í tilkynningu Seðlabankans í gærkvöldi að gjaldeyrisforði bankans myndi minnka um rúmlega 47 milljarða króna í kjölfar útboðsins. Hrafn segir það litla fjárhæð í stóra samhenginu, aðeins um 10% af hreinum forða bankans.

„Gjaldeyriskaup Seðlabankans hafa verið gríðarlega umfangsmikil það sem af er ári. Hann hefur keypt yfir 160 milljarða króna frá áramótum. Það sýnir hvað það getur tekið bankann skamman tíma að vinna upp þennan hluta af forðanum, 47 milljarða, sem brennur upp í þessu útboði. Við teljum að gjaldeyrisforðinn sé hæfilega stór til þess að hægt sé að losa um höft á fyrirtæki og almenning á næstu mánuðum. Seðlabankastjóri hefur sagt að eftir útboðið muni bankinn safna í forðann og reyna að ná hæfilegri stærð sem fyrst, einhvern tímann í haust. Við teljum að það gæti gerst jafnvel fyrr, í júlí eða ágúst.“

Frétt mbl.is: Tóku tilboðum fyrir 72 milljarða

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK