Sætta sig ekki við hvaða gengi sem er

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Rósa Braga

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir það ákveðin vonbrigði hve dræm þátttaka hafi verið í aflandskrónuútboðinu. Útboðsgengið, 190 krónur fyrir hverja evru, hafi greinilega verið of hátt að mati sumra aflandskrónueigenda. Þeir hafi ekki verið tilbúnir til þess að fara út á því gengi.

„Það er alveg ljóst að við erum ekki að losa um eins stóran stabba af aflandskrónueigendum og áformað var. Það þýðir þá að við höfum ákveðna óvissu hangandi yfir okkur,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Til dæmis ríki óvissa um hvort aflandskrónueigendur láti reyna á lagalegu hlið málsins.

Seðlabankinn samþykkti tilboð í aflandskrónueignir upp á aðeins rúmlega 72 milljarða króna í útboðinu. Alls gátu eigendur slíkra eigna að fjárhæð tæplega 320 milljarðar króna tekið þátt.

Ákvað bankinn að taka öllum tilboðum sem bárust á genginu 190 krónur á hverja evru eða lægra.

Stór varaforði dýr

Ásdís segir að í ljósi þess að stór stabbi af aflandskrónueigendum sé enn hér inni í höftunum, þ.e. hafi ákveðið að taka ekki þátt í útboðinu, þá þurfi gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans að vera rúmur og stór. Það kosti okkur pening. „Það kostar að vera með stóran varaforða og á meðan stór hluti aflandskrónueigendanna er enn þá hér inni, þá þarf Seðlabankinn að halda úti stórum forða,“ útskýrir hún.

Ásdís telur þó að niðurstaða útboðsins ætti ekki að hafa áhrif á áform stjórnvalda um frekari losun hafta á innlenda aðila, svo sem fyrirtæki, einstaklinga og lífeyrissjóði, á komandi mánuðum. Seðlabankinn hafi gefið skýrlega til kynna að útboðið yrði það síðasta sem haldið yrði og þeir sem tækju ekki þátt yrðu einfaldlega girtir af.

Dræm þátttaka var í aflandskrónuútboði Seðlabankans.
Dræm þátttaka var í aflandskrónuútboði Seðlabankans. mbl.is/Árni Sæberg

Losi um höftin sem allra fyrst

„En samt sem áður er ákveðin óvissa hangandi yfir okkur. Og það kostar að halda úti stórum varaforða á meðan þessi óvissa er enn til staðar. Seðlabankinn gerði auðvitað ráð fyrir að það yrði betri þátttaka. En þetta kemur ekki endilega á óvart. Það voru sögusagnir á kreiki um að stórir aðilar væru ekki að fara að taka þátt,“ segir hún.

Ásdís telur afar mikilvægt að stjórnvöld stigi skrefið sem allra fyrst og losi um fjármagnshöftin. „Einkum og sér í lagi vegna þess að aðstæður gætu vart verið betri til haftalosunar, bæði þegar við lítum til efnahagslegrar stöðu Íslands og eins hvernig staðan er erlendis. Við verðum að sjá frekari skref stigin á komandi mánuðum. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur öll.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK