Stærstu eigendurnir sátu hjá

Miðað við upphæð samþykktra tilboða mun gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands minnka …
Miðað við upphæð samþykktra tilboða mun gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands minnka um rúmlega 47 milljarða króna í kjölfar útboðsins. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Meðalupphæð samþykktra tilboða í aflandskrónuútboðinu var 45 milljónir króna. Því blasir við að stærstu aflandskrónueigendurnir hafi boðið hærra gengi en Seðlabankinn sá ástæðu til að samþykkja, að því er fram kemur í nýrri greiningu hagfræðideildar Landsbankans.

Hagfræðideildin segir að þátttakan í útboðinu hafi verið góð með tilliti til fjölda tilboða en upphæð samþykktra tilboða hafi hins vegar verið hlutfallslega lág. 

Á síðustu fimm árum hefur Seðlabankinn haldið alls 21 gjaldeyrisútboð fyrir aflandskrónueigendur og heildarviðskiptin í þeim nema 158 milljörðum króna. Útboðið í síðustu viku var það síðasta sem haldið verður.

„Með þessu útboði var stigið mun stærra skref en í fyrri útboðunum þar sem öllum aflandskrónueigendum var tryggð útganga á ákveðnu lágmarksverði. Alls er um að ræða eignir að verðmæti um 320 milljarða króna,“ segir hagfræðideildin.

Forðinn minnkar um 5%

Þátttaka í útboðinu var valfrjáls og eigendur aflandskróna ákváðu tilboð sín í útboðinu sjálfir.

Með fyrirvara um endanlegt uppgjör bárust alls 1.646 tilboð. Ákveðið var að taka öllum tilboðum sem bárust á genginu 190 krónur á hverja evru eða lægra og var 1.619 tilboðum tekið (98,4% tilboða).

„Heildarupphæð tilboða nam 178 ma.kr. en fjárhæð samþykktra tilboða nam rúmlega 72 ma.kr. (40,4% heildarupphæðarinnar). Meðalupphæð samþykktra tilboða var einungis 45 milljónir króna. Því blasir við að stærstu eigendurnir hafa boðið hærra gengi en Seðlabankinn sá ástæðu til að samþykkja.“

Miðað við upphæð samþykktra tilboða muni gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands minnka um rúmlega 47 milljarða króna í kjölfar útboðsins. Til samanburðar hafi nettókaup Seðlabankans á millibankamarkaði með gjaldeyri í apríl og maí á þessu ári verið lítið meiri eða um 50 milljarðar.

Vergur forði í lok maí var 781 ma. kr. þannig að hann minnkar um rúmlega 5%.

36% afföll

„Samþykkt gengi var sem fyrr sagði 190 krónur fyrir hverja evru. Eigendur þessara aflandskróna eru því að borga um 50 krónum meira fyrir hverja evru en viðmiðunargengi Seðlabankans segir til um. Álagið á skráð gengi er því 36%. Þetta er 30 krónum lægra verð fyrir evruna en vegið meðaltal í hinum 21 útboðunum (220 kr. á evru).

Álag á skráð gengi í fyrri útboðum var að meðaltali 36%, sama og í útboðinu á föstudag,“ bendir hagfræðideildin jafnframt á.

Aflandskrónueignirnar að upphæð 320 ma. kr. skiptast þannig:

  • 95 ma. kr. (30%) eru í innistæðum eða fjármunum á fjárvörslureikningi,
  • 175 ma. kr. (55%) eru í skuldabréfum og víxlum útgefnum af ríkissjóði eða með ábyrgð ríkissjóðs og
  • 50 ma. kr. (15%) eru í hlutabréfum, hlutdeildarskírteinum og skuldabréfum án ríkisábyrgðar.

Mikill munur var eftir eignaflokkum í samþykktum tilboðum. Langmest var samþykkt af tilboðum í innistæðum og fjármunum á fjárvörslureikningi, mjög lítið í skuldabréfum með ábyrgð ríkissjóðs, og ekkert af hlutabréfum, að sögn hagfræðideildinnar.

Mismunandi staða þeirra sem eftir eru

Nokkur munur er á stöðu eigenda þeirra aflandskróna sem tóku ekki þátt eða áttu tilboð sem var hafnað eftir eignaflokka. Eigendur þeirra aflandskróna sem eiga ríkisbréf sem eru ekki á gjalddaga í bili og eigendur hlutabréfa geta verið nokkuð rólegir þó þeir séu áfram „læstir inni“ í nokkur ár.

Eigendur þeirra aflandskróna sem eru í innistæðum, víxlum eða í ríkisbréfum sem eru á gjalddaga í ár lenda hins vegar með sínar krónur inn á bankareikningi á engum vöxtum ef þeir nýta sér ekki önnur úrræði sem Seðlabankinn býður upp á, þ.e.a.s. þeim býðst að kaupa evrur fyrir kr. 190 til kl. 10 þann 27 júní. Nýti þeir sér það ekki mun þeim áfram bjóðast evrur til kaups á genginu kr. 220 til 1. nóvember 2016. Eftir þann tíma fara þeir aftast í röðina þegar kemur að afléttingu fjármagnshaftanna.

Ræðst af ýmsum þáttum

„Að mati Seðlabankans gæti það tekið mörg ár að aðlaga innlend eignasöfn að æskilegri samsetningu innlendra og erlendra eigna. Þá gæti þörf fyrir beinar fjárfestingar innlendra fyrirtækja erlendis reynst töluverð eftir tæp átta ár í fjármagnshöftum. Seðlabankinn bendir þó á að þegar betra jafnvægi kemst á eignasöfn innlendra aðila verður sjónum aftur beint að losun fjármagnshafta á aflandskrónueignir í áföngum.

Hvenær það gerist og hvernig ræðst meðal annars af erlendri fjárfestingaþörf innlendra aðila, beinni langtímafjárfestingu erlendra aðila, stærð gjaldeyrisforða á hverjum tíma, þróun viðskiptajafnaðar og ytri stöðu þjóðarbúsins,“ segir hagfræðideildin að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK