Bjarni frummælandi á Euromoney

Bjarni var á ráðstefnunni beðinn um að spá fyrir um …
Bjarni var á ráðstefnunni beðinn um að spá fyrir um úrslit í leik Íslands og Austurríkis og spáði hann því að leikurinn færi 2-1 fyrir Íslandi, sem svo reyndist rétt. Mynd/Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, var meðal frummælenda á árlegri skuldabréfaráðstefnu á vegum Euromoney í London á miðvikudaginn. Ráðstefnan hefur verið haldin í 25 ár og leiðir saman helstu fjárfesta, skuldabréfaútgefendur og fulltrúa fjármálafyrirtækja. Á ráðstefnunni er meðal annars rætt um þróun og horfur á fjármálamörkuðum,  fjárfestingatækifæri, áhættu og áskoranir, út frá sjónarhóli fjárfesta, útgefenda og annarra hagsmunaaðila. Þátttakendur eru hátt í eitt þúsund talsins. 

Megininntak í máli fjármálaráðherra var hinn mikli viðsnúningur sem náðst hefur í efnahags- og ríkisfjármálum síðustu árin. Ráðherra þakkaði hann margvíslegum aðgerðum og ákvörðunum sem teknar voru strax við fall fjármálafyrirtækjanna sem og á síðari árum. Neyðarlögin, uppskipting bankanna og hvernig staðinn var vörður um ríkissjóð hafi ekki síst skipt máli. 

Vinnumarkaðurinn stærsta áskorunin

Bjarni sagði að framlag ferðaþjónustunnar til vaxtar efnahagslífsins væri mikilvægt og væri hún nú orðin ein mikilvægasta stoðin í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins en yfir 20% vöxtur ferðamanna hefði verið viðvarandi síðustu ár. Hann vék einnig að því að vöxturinn kallaði á meiri fjárfestingar í greininni, bæði hjá hinu opinbera og í einkageira. 

Bjarni benti á að ein helsta áskorunin sem Ísland stæði frammi fyrir til að viðhalda góðum árangri væri staðan á vinnumarkaði, en launahækkanir síðustu kjarasamninga hefðu verið langt umfram framleiðniaukningu. Verðbólga væri áhyggjuefni í því sambandi. 

Ráðherra var á ráðstefnunni spurður um áætlun um afnám fjármagnshafta og hver væru næstu skref í því sambandi. Bjarni fór yfir þau mikilvægu skref sem þegar hafa verið tekin, bæði með uppgjöri slitabúa föllnu bankanna og gjaldeyrisútboði Seðlabankans sem haldið var á dögunum. Þessar aðgerðir geri kleift að fara að huga að síðasta skrefinu í afnámsferlinu sem miðar að innlendum aðilum.  

Ræddi um nýtt varúðartæki

Bjarni sagði að ný lög um varúðartæki Seðlabankans til að bregðast innflæði erlends fjármagns inn í landið væru mikilvæg til þess að geta brugðist við ef erlent, kvikt fjármagn færi að leita í ríkum mæli til Íslands, sér í lagi til að nýta hinn mikla vaxtamun sem væri til staðar við önnur lönd. 

Hann vék einnig að því að mörg framfaraskref hafa verið tekin á síðustu árum til að bæta umgjörð ríkisfjármála og efnahagslífsins, m.a. innleiðing laga um opinber fjármál og ný lög um varúðartæki Seðlabankans. 

Ekki þörf á frekari lántöku að sinni

Á ráðstefnunni var rætt um erlenda útgáfu ríkissjóðs og bætta stöðu banka sem hafi verið vel tekið á alþjóðamörkuðum að undanförnu. Ráðherra benti á að erlend lántaka ríkissjóðs væri  mikilvæg fyrir aðgengi innlendra fyrirtækja að alþjóðafjármagnsmörkuðum og í því sambandi æskilegt að leitast við að halda úti 1–2 viðmiðum í erlendri skuldabréfaútgáfu. Ísland er nú með tvær slíkar útgáfur útistandandi, aðra í evrum og hina í Bandaríkjadölum. Búið væri að gera upp öll lán tengd efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ekki væri þörf á frekari lántöku að sinni en það yrði metið síðar út frá stærð gjaldeyrisforða Seðlabankans.   

Sannspár ráðherra

Ráðstefnan var haldin sama dag og leikur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Austurríki í París í lokakeppni EM. Ráðherra var að lokum beðinn um að spá fyrir um úrslit og spáði hann því að leikurinn færi 2-1 fyrir Íslandi, sem svo reyndist rétt. Hann uppskar mikið lófatak fyrir vikið og ljóst að Ísland átti margt stuðningsfólk í salnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK