Góð hugmynd í augum fárra

Ásgeir Jónsson, doktor í hagfræði og dósent við Háskóla Íslands.
Ásgeir Jónsson, doktor í hagfræði og dósent við Háskóla Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ásgeir Jónsson hagfræðingur segir niðurstöðuna í Bretlandi hafa komið sér á óvart þar sem Bretar hafi lengið verið í þeirri stöðu að geta valið og hafnað hlutum frá ESB. Enginn vafi sé á því að landið hafi hagnast vel á aðildinni. Sérstaklega hafi London vaxið og dafnað sem fjármálamiðstöð á hinum sameiginlega markaði. „Enda held ég að sá hagfræðingur finnist vart í Bretaveldi sem áleit þetta góða hugmynd,“ segir hann.

Hann álítur útgönguna marka grundvallarbreytingu í breskum stjórnmálum. Bretar hafi um langa hríð lagt ofurkapp á að hafa áhrif innan Evrópu og meðal annars lagt fast að því að komast inn í sambandið á sínum tíma þegar Frakkar beittu lengi neitunarvaldi gegn aðild þeirra.

Nú séu þeir hins vegar að draga sig til baka til áhrifaleysis. Þeir muni því ekki sitja við borðið þegar stærri ákvarðanir verða teknar innan álfunnar í framtíðinni. Sú staðreynd muni bæði hafa veruleg áhrif á stjórnmál innan Bretlands og á meginlandinu. „Mér finnst hins vegar líklegra að áhrifin verði meiri í þá átt að breska sambandið leysist upp með brottför Skotlands og mögulega N-Írlands fremur en að ESB leysist upp.“

Óvissutímabil fyrir alþjóðleg fyrirtæki

Ásgeir segir mikla óvissu vofa yfir bresku efnahags- og atvinnulífi. „Þetta óvissutímabil verður mjög erfitt þar sem mörg alþjóðleg fyrirtæki sem eru í London munu væntanlega skoða stöðu sína. Ég get ekki annað séð en það muni taka töluverðan tíma fyrir Breta að endursemja við Evrópusambandið,“ segir Ásgeir sem telur að samningaviðræðurnar verði eflaust ekki auðveldar í ljósi þess að sambandinu sé illa við þetta fordæmi.

Yfirvofandi útganga Breta úr ESB hefur þegar haft gríðarleg áhrif …
Yfirvofandi útganga Breta úr ESB hefur þegar haft gríðarleg áhrif á markaði. AFP

Ólíklegt að þeir vilji í EES

Ásgeir telur ólíklegt að Bretar vilji koma að EES-samningnum og finnst líklegra að látið verði reyna á tvíhliða viðræður í anda þess sem Sviss gerði. „Mér finnst ólíklegt að Bretar vilji binda sig í einhvers konar aukaaðild líkt og EES-samningnum sem felur nánast sama stofnanaramma í sér og bein aðild, það er hvað varðar upptöku laga og reglna frá Brussel, utan þess að þeir hafi enga aðild að ákvarðanatöku,“ segir hann. „Það kann að henta vel fyrir smærri lönd að vera fylgitungl sambandsins líkt og Noregur og Ísland en síður fyrir hið stóra Bretland.“

Þess í stað telur Ásgeir að þeir muni þeir reyna að sækja sértækar lausnir beint til sambandsins en óvíst er hversu vel það muni ganga. Það sé heldur ekki alveg fyrirséð hvaða áhrif brotthvarf Breta muni hafa á önnur ESB-lönd. 

AFP

Býst ekki við langtímaáhrifum

Þá eigi óvissan ekki einungis við um framtíð Breta í tengslum við Evrópusambandið heldur einnig um bresk stjórnvöld þar sem óvíst sé hver muni leiða þjóðina áfram. „Og óvissa er það sem fyrirtæki hata mest af öllu,“ segir Ásgeir.

Hann bendir á að mikill titringur hafi verið á alþjóðamörkuðum á þessu ári og að markaðsaðilar virðist gagngert hafa verið að leita að tilefnum til þess að hafa áhyggjur. Þar megi til dæmis nefna ástandið í Kína, sífellda spennu vegna vinnumarkaðstalna í Bandaríkjunum og svo mætti lengi telja.

Útganga Breta bætist nú við þennan lista. Þetta skipti máli þar sem markaður í jafnvægi sé eðli málsins samkvæmt betur í stakk búinn fyrir slæmar fréttir. Hins vegar sýni reynslan að markaðir séu fljótir að komast yfir neikvæðar fréttir og brátt verði eitthvað annað sem fangi athyglina. „Ég býst alls ekki við neinum langtímaáhrifum á alþjóðavísu af úrsögn Breta,“ segir Ásgeir.

Óvissa er það sem helst lýsir ástandinu.
Óvissa er það sem helst lýsir ástandinu. AFP

Standa okkur næst

Hvað Ísland varðar telur Ásgeir að áhrifin verði ekki veruleg. „Bretland er stærsti einstaki útflutningsmarkaður okkar og lægra pund kemur okkur illa en á sama tíma mun hækkun dollarans skila okkur ábata. Íslenskir útflytjendur hafa mikla reynslu í því að eiga við gengissveiflur.“

Hann bendir hins vegar á að Íslendingar séu mjög tengdir Bretlandi, ekki aðeins í viðskiptum heldur einnig hvað varðar menningu, stjórnmál og hugmyndafræði. London sé líklega sú borg sem okkur standi næst. Breytt staða Bretlands innan Evrópu muni því hafa gríðarleg áhrif hérlendis og muni án efa tengja þessar tvær eyþjóðir betur saman sem báðar verða utan ESB. Áhrifin risti því mögulega dýpra en mælt verður í sölu á sjávarafurðum og öðru slíku, segir hann.

„Það kemur okkur heldur ekki vel ef breskt hagkerfi fer að hiksta þar sem Bretland er stærsta einstaka viðskiptalandið okkar,“ segir Ásgeir. Hann telur þó að Íslendingar muni ekki eiga í neinum vandræðum með að viðhalda tengslum sínum við Bretland.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK