Hlutabréf í frjálsu falli

Gengi sterlingspundsins hefur hríðfallið í nótt og morgun.
Gengi sterlingspundsins hefur hríðfallið í nótt og morgun. AFP

Hlutabréfavísitölur í Lundúnum hríðféllu um meira en 8% þegar markaðir opnuðu í morgun. FTSE 100-hlutabréfavísitalan, sem er sú stærsta í landinu, lækkaði um meira en 500 stig í fyrstu viðskiptum dagsins og stendur nú í 5.808,72 stigum. Lækkunin var um 8,4%.

Þá lækkuðu hlutabréf breskra banka skarpt í morgun, en bréfin í Barclays og RBS fóru niður um allt að 30%, svo dæmi séu tekin.

Sérfræðingar á fjármálamarkaði segjast ekki hafa séð aðrar eins lækkanir frá fjármálahruninu árið 2008.

Gengi sterlingspundsins hríðféll jafnframt um meira en 10% eftir að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar urðu ljósar. Hafði gengið þá ekki verið lægra í 31 ár, eða frá árinu 1985.

Forsvarsmenn Englandsbanka sögðust í yfirlýsingu strax í morgunsárið fylgjast vel með þróuninni á fjármálamörkuðum. Þeir myndu grípa til „allra nauðsynlegra aðgerða“ til þess að bregðast við stöðunni og róa fjárfesta.

„Þetta er einfaldlega fordæmalaust,“ segir Dennis de Jong, greinandi hjá UFX.com. Pundið haldi áfram að falla og það sama megi segja um FTSE 100-hlutabréfavísitöluna.

Miklar lækkanir urðu á hlutabréfum um alla Evrópu í morgun. Aðalhlutabréfavísitalan í Þýskalandi féll til að mynda um 10% og 5% í Frakklandi.

Þá lækkaði hlutabréfavísitalan í Tókíó í Japan um 7% í nótt. Það er mesta lækkun á einum degi í fimm ár.

Verðbréfamiðlarar í Lundúnum.
Verðbréfamiðlarar í Lundúnum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK