Gekk ekki vegna greiðslna

Grétar hefur tryggt sér leiguvél frá Luxair fyrir 180 manns.
Grétar hefur tryggt sér leiguvél frá Luxair fyrir 180 manns. Samsett mynd

Grétari Sigfinni Sigurðssyni tókst að fylla vélina sem átti að fljúga á leik landsliðsins í Nice en seinagangur með greiðslur hjá nokkrum farþegum kom í veg fyrir brottför. Hann hefur þó tekið frá aðra vél til Frakklands. Bara svona til öryggis ef Íslendingar skyldu komast áfram í átta liða úrslit.

Grétar pantaði upphaflega 180 manna vél til Nice í gegnum Luxa­ir frá Lúx­em­borg og átti ferðin þá að kosta 129.900 krónur á mann. Vélin rann hins vegar úr greipum Grétars á síðustu stundu og fékk hann þá aðra minni vél sem rúmaði 150 manns. Hækkaði fargjaldið þá um fimmtíu þúsund krónur þar sem kostnaðinum við leiguna var einfaldlega deilt niður á alla farþega í fullri vél.

Gífurlega margir sýndu þessu áhuga og telur Grétar að fyrirspurnirnar hafi alls verið um 800 talsins. Um 400 staðfestu áhuga sinn í fyrri vélina og 250 höfðu skrifað undir staðfestingu í þá seinni og dýrari.

Hefði gengið á nokkrum klukkustundum til viðbótar

Fyrirvarinn var hins vegar skammur og ganga þurfti frá bókun og greiðslu mjög hratt. Einungis níutíu manns náðu að greiða í tæka tíð fyrir klukkan 14 á föstudag og gat Grétar ekki fengið frekari greiðslufrest frá félaginu. „Það var að koma helgi og flugfélagið var undir pressu frá öðrum sem vildu leigja vélina. Ef ég hefði haft nokkrar klukkustundir í viðbót hefði verið hægt að klára málið,“ segir Grétar sem er frekar vonsvikinn yfir niðurstöðunni.

Leigan á vélinni kostaði um þrjátíu milljónir króna og þurfti að greiða heildarsummuna til að fá hana. Grétar hefði því sjálfur þurft að greiða mismuninn til að klára málið. „Ég er náttúrulega bara ég og þetta kostaði um þrjátíu milljónir. Ég hefði þurft að punga út helmingnum til að taka vélina frá,“ segir hann og útskýrir að flugfélagið hafi ekki viljað leggja út í vinnuna við að gera vélina ferðbúna án greiðslunnar þar sem brottför átti að vera snemma í morgun.

Grétar telur að einhverjir sem áttu bókað far með sinni …
Grétar telur að einhverjir sem áttu bókað far með sinni vél hafi komist í Icelandair-ferðina. AFP

„Þetta reddast“

„En þetta er klárlega möguleiki og ég sá að það er vel hægt að gera þetta. Hins vegar eru Íslendingar oft í „þetta reddast“-gírnum og einhverjir voru að spyrja hvort þeir mættu ekki bara leggja inn klukkan fjögur, en það var bara ekkert hægt,“ segir hann.

Þar sem niðurstaðan lá fyrir um klukkan tvö á föstudag gat Grétar hins vegar verið snöggur að láta fólk vita og endurgreiddi strax þessum níutíu sem höfðu þegar greitt fargjaldið. Hann segist hafa vitað að miðar í Icelandair-vélina, sem seldust upp á innan við tíu mínútum, væru að fara í sölu og telur hann að margir hafi farið frá sér og yfir í hana. „Þeir áttu að minnsta kosti möguleika á að reyna að ná henni en það var greinilega þörf fyrir þetta þar sem margir komust síðan ekki út vegna þessa,“ segir Grétar.

Frétt mbl.is: Seldist upp á sjö mínútum

Sjálfur ætlaði Grétar hins vegar aldrei á leikinn. „Ég ætlaði ekkert að fara út og var bara að gera þetta fyrir aðra. Ég er að spila fótbolta með Stjörnunni og við fáum ekkert frí. Það er bara æfing í fyrramálið,“ segir Grétar léttur.

Kominn með aðra vél

Hann segir nokkuð ljóst að þörf verði á fleiri ferðum til Frakklands ef Íslendingar sigra í kvöld og komast áfram í átta liða úrslit. Hefur hann því tekið frá aðra vél hjá öðru flugfélagi ef svo skyldi fara. „Ég hef enga trú á öðru en að vélin fyllist ef að því kemur,“ segir hann.

Inntur eftir spá fyrir kvöldið telur hann líkurnar 50/50. „Ef við erum að tala um líkur og getuna að þá myndi ég klárlega segja nei. Hins vegar er Ísland með einhvern x-faktor núna og ég tippa því á hið óútreiknanlega,“ segir Grétar.

Frétt mbl.is: 140 sæti farin af 160

Frétt mbl.is: Leig­ir flug­vél til Frakk­lands.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK