Osborne reynir að róa markaði

George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands.
George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands. AFP

Fjármálaráðherra Bretlands, George Osborne, lagði áherslu á að breska hagkerfið sé sterkt í grundvallaratriðum, afar samkeppnishæft og opið fyrir viðskiptum í ræðu sem hann hélt fyrir opnun evrópskra markaða í morgun. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefði hins vegar áhrif á efnahaginn og fjármál hins opinbera.

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um úrgöngu Breta úr Evrópusambandinu hefur valdið óróa á mörkuðum og hefur pundið látið undan síga gagnvart dollara. Osborne freistaði því þess að róa markaðina með ræðu í morgun.

Í henni sagði hann að sum fyrirtæki velji áfram að setja ákvarðanir um fjárfestingar og ráðningar í bið vegna óvissunnar eftir úrslitin. Ljóst sé að ríkisstjórnin þurfi að grípa til ráðstafana til að bregðast við áhrifunum á efnahagslífið og ríkisfjármálin.

Áður hafði Osborne sagt að grípa þyrfti til neyðarfjárlaga ef kæmi til úrsagnar úr Evrópusambandinu. Í morgun sagði hann að í ljósi þess að Bretar muni ekki tilkynna formlega um úrsögn sína strax og að David Cameron forsætisráðherra ætli að stíga til hliðar í haust sé viturlegt að bíða með ákvarðanir um aðgerðir fram á haustið. Sjálfur ætli hann að taka þátt í viðræðum við Evrópusambandið um hvað taki við.

„Enginn ætti hins vegar að efast um staðfestu okkar í að viðhalda þeim fjármálalega stöðugleika sem við höfum fært þessu landi. Breska hagkerfið er sterkt í grundvallaratriðum, við erum mjög samkeppnisfær og við erum opin fyrir viðskiptum,“ sagði Osborne sem lýsti því enn fremur að hann myndi tjá sig síðar um hvort hann sækist eftir að taka við af Cameron sem leiðtogi Íhaldsflokksins.

The Guardian segir að pundið hafi styrkst lítillega eftir ræðu fjármálaráðherrans en það sé enn lægra en dollarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK