Fjölga ekki ferðum til og frá Bretlandi

AFP

Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair mun ekki fjölga flugferðum til og frá Bretlandi á næsta ári, heldur þess í stað einbeita sér að því að auka umsvif sín í Evrópusambandsríkjum.

Ástæðan er sögð sú óvissa sem ríkir í kjölfar þess að Bretar ákváðu að segja skilið við Evrópusambandið.

Michael O'Leary, forstjóri Ryanair, sagði í samtali við Wall Street Journal að félagið myndi nú kappkosta að hasla sér völl innan Evrópusambandsins.

Ryanair flytur yfir eitt hundrað milljónir farþega á ári, þar af um fjörutíu milljónir til og frá Bretlandi.

Stærsta starfsstöð flugfélagsins er á Stansted-flugvellinum í Lundúnum.

Hlutabréf félagsins hafa hríðfallið um meira en 23% í verði eftir að Bretar samþykktu að yfirgefa Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu á fimmtudaginn.

O'Leary barðist fyrir áframhaldandi aðild Breta að sambandinu, en í kosningabaráttunni sagðist hann ætla að draga úr fjárfestingum flugfélagsins ef Bretar kysu að yfirgefa sambandið.

Hann býst við því að „töluverð óvissa“ muni ríkja næstu þrjá til fjóra mánuði vegna atkvæðagreiðslunnar, en að úrslitin muni hafa takmörkuð áhrif á bókanir til og frá Bretlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK