Fleiri atvinnulausar konur um allt land

Meðalatvinnuleysi hefur ekki verið lægra frá ársbyrjun 2009.
Meðalatvinnuleysi hefur ekki verið lægra frá ársbyrjun 2009. mbl.is/Ómar Óskarsson

Atvinnuleysi hefur minnkað hratt á undanförnum misserum og er orðið minna áhyggjuefni en var á síðastliðnum árum. Í maí var skráð atvinnuleysi 2,2% og meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánuði 2,6% samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Meðalatvinnuleysi hefur ekki verið lægra frá ársbyrjun 2009, hvort sem litið er til mælinga Vinnumálastofnunar eða Hagstofunnar.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Í maí var atvinnuleysi mest á höfuðborgarsvæðinu, 2,4%, og þar á eftir komu Vestfirðir og Norðurland eystra með 2,2%. Suðurnesin voru þannig í 4. sæti nú í maí. Atvinnuleysi mælist minnst á Norðurlandi vestra, um 1%.

Tvöfalt fleiri konur atvinnulausar á Vestfjörðum

Í Hagsjánni kemur fram að atvinnuleysi kvenna er alls staðar mun meira en meðal karla. Mestur er munurinn á Norðurlandi vestra þar sem atvinnuleysi kvenna er rúmlega tvöfalt á við karla. Á landinu öllu var atvinnuleysi kvenna 2,6% í maí og atvinnuleysi karla 1,8%.

Ekki sami þrýstingur og fyrir hrun

Fjölgun heildarvinnustunda hefur verið nokkuð ójöfn á síðustu árum og þannig hefur ekki myndast jafnmikill þrýstingur á vinnumarkaðinn og var á árunum fyrir hrun.

Aukning heildarvinnustunda á síðustu misserum hefur fyrst og fremst byggt á auknum fjölda starfandi fólks og vinnutími þeirra sem starfa hefur breyst mun minna. Þetta bendir til þess að atvinnulífinu hugnist betur að fjölga störfum í stað þess að lengja vinnutíma þeirra sem eru starfandi.

Minna af innfluttu vinnuafli en fyrir hrun

Innflutningur erlends vinnuafls hefur aukist stöðugt á síðustu fjórum árum, en á þeim tíma hafa um 5.600 fleiri útlendingar á aldrinum 20 til 59 ára flutt til landsins en frá því. Þrátt fyrir mikla aukningu eru þetta mun færri útlendingar en komu inn á vinnumarkaðinn á árunum fyrir hrun. Á árunum 2004 til 2007 komu þannig um 13.500 fleiri útlendingar á vinnualdri til landsins en fóru frá því.

Aðstæður á íslenskum vinnumarkaði eru því óðum að færast í kunnuglegt horf. Lítið atvinnuleysi og umframeftirspurn eftir vinnuafli. Það vantar þó töluvert upp á að ástandið verði svipað og á árunum 2004 til 2007, að sögn hagfræðideildar Landsbankans. Fjöldi starfandi hefur ekki aukist eins mikið og þá gerðist og sama má segja um vinnutímann. Þá er innflutningur vinnuafls enn sem komið er mun minni en var á þessum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK