Lokað á útigangsmenn í Brautarholti

Brautarholt 18 og 20 eru í eigu LL09 ehf., dótturfélags …
Brautarholt 18 og 20 eru í eigu LL09 ehf., dótturfélags Upphafs fasteigna, sem er dótturfélag GAMMA. mbl.is/Styrmir Kári

Lélegt ástand Brautarholts 20 sem áður hýsti Baðhúsið og Þórscafé hefur vakið athygli margra sem átt hafa leið þar hjá. Útigangsmenn höfðu hreiðrað um sig í húsnæðinu en því hefur nú verið lokað. Húsið er í eigu dótturfélags GAMMA.

Brautarholt 20 hefur staðið autt frá því að Baðhúsið var flutt yfir í Smáralind í lok árs 2014 en það var einnig fast­ur viðkomu­staður margra Reyk­vík­inga í skemmtana­líf­inu á árum áður, þar sem skemmti­staður­inn Þórsca­fé var þar einnig til húsa. 

Vinna að nýtingu með borginni

Í dag er húsnæðið í eigu félagsins LL09 ehf., sem er í eigu félagsins Upphafs fasteigna ehf. Það félag er síðan í eigu Upphafs fasteignafélags slhf., sem er í eigu fjárfestingarsjóðsins GAMMA:Novus sem er í stýringu hjá GAMMA. Félagið keypti eignina á síðasta ári.

Félagið á einnig Brautarholt 18 sem er við hlið Brautarholts 20 og til stendur að nýta húsin saman. Í samtali við mbl segir Eiríkur Finnur Greipsson, verkefnastjóri Upphafs fasteignafélags, að reiturinn sé í þróun og vinnslu með borgaryfirvöldum. Ótímabært sé að segja til um niðurstöðuna. Þá sé einnig erfitt að áætla tímaramma sökum þess að takturinn veltur að miklu leyti á borginni.

Inni í Brautarholti 20. Húsnæðið hefur staðið autt frá því …
Inni í Brautarholti 20. Húsnæðið hefur staðið autt frá því að Linda Pétursdóttir flutti Baðhúsið yfir í Smáralind. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Verðmætar eignir í hverfinu

Aðspurður hvort til standi að nýta húsnæðið undir íbúðir eða atvinnurekstur segir hann báða kosti koma til greina og þá einnig að samnýta húsnæðið fyrir þetta tvennt. „Við erum að þróa þetta í samvinnu við borgina og endanleg niðurstaða er ekki ljós. Það getur tekið langan tíma að fá svör en auðvitað viljum við að þetta taki sem stystan tíma,“ segir Eiríkur.

Upphaf fasteignafélag hefur unnið að annarri uppbyggingu í hverfinu og setti félagið til að mynda í sölu fjórar íbúðir í nýuppgerðu fjölbýlishúsi í Skipholti undir lok síðasta árs. Verð íbúðanna var á bilinu frá 56,9 til 69,9 milljónir króna og eru þær 104 til 135 fermetrar. Fermetraverðið var því á bilinu 517 til 581 þúsund krónur

Eiríkur segir það ekki hafa komið til tals að rífa húsið og vonar hann að hægt verði að nýta húsnæðið með öðrum hætti.

Unnið er að nýtingu húsnæðisins í samvinnu við Reykjavíkurborg.
Unnið er að nýtingu húsnæðisins í samvinnu við Reykjavíkurborg. mbl.is/Styrmir Kári

Reyna að hugsa vel um sínar eignir

Brautarholtið hefur verið útkrotað um langan tíma og höfðu útigangsmenn hreiðrað um sig í húsnæðinu. Aðspurður um þetta segir Eiríkur að húsnæðið sé til skammar og bætir við að félagið muni örugglega reyna að laga það eitthvað. Hann bendir á að búið sé að loka húsinu og á fólk því ekki að komast inn í það.

„Við reynum að hugsa vel um okkar eignir og passa að þær séu ekki til vansa,“ segir Eiríkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK