Dýraríkinu lokað

Gunnar Vilhelmsson, eigandi Dýraríkisins.
Gunnar Vilhelmsson, eigandi Dýraríkisins. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Dýraríkinu, sem er elsta starfandi dýraverslun landsins, verður lokað á næstunni en eigandi segir að þungur skuldabaggi hafi legið á fyrirtækinu frá hruni. Að meðtöldum fiskunum eru nokkur þúsund dýr í versluninni en að þeim frátöldum eru fuglarnir og nagdýrin um 100 til 200 talsins. 

Gunnar Vilhelmsson, eigandi Dýraríkisins, ætlar að reyna að finna öllum dýrunum heimili áður en hann þarf að skella í lás en þau sem eftir verða fara líklega heim til hans. Gunnar hefur rekið Dýraríkið í 38 ár og er því um langelstu dýrabúð landsins að ræða. Ekki er alveg víst hvenær búðinni í Holtagörðum verður lokað en það er samningsatriði milli Dýraríkisins og húseiganda. Telur hann nokkuð ljóst að það verði alveg á næstunni og er rýmingarsala þegar hafin.

Dýraríkinu verður lokað á næstunni.
Dýraríkinu verður lokað á næstunni.

Slæmt umtal hafði mikil áhrif

Gunnar segist hafa komið illa frá hruninu og aldrei náð rekstrinum á strik. Þá hafi aukin samkeppni og illt umtal á síðasta ári gert út af við reksturinn. Fréttir af aðbúnaði dýra í versluninni vöktu athygli síðasta haust og fór Matvælastofnun í kjölfarið í eftirlitsferð og gerði athugasemdir við nokkur frávik frá reglum um dýravelferð. Meðal annars var gerð athugasemd við að smá­dýr væru drep­in þar með klóró­formi.

Þetta hafði slæm áhrif á fyrirtækið að sögn Gunnars. „Þetta er svipað og þegar fólk lendir í einelti. Drullan er flogin út um allt á netinu og þú þværð þetta aldrei af þér, alveg sama hvað þú gerir. Fólk er oftast tilbúið að trúa öllu illu upp á þig en lítill áhugi á hinu góða,“ segir Gunnar.

Mörg degu-nagdýr eru í búðinni. Tvær systur eru nýbúnar að …
Mörg degu-nagdýr eru í búðinni. Tvær systur eru nýbúnar að eiga samtals sautján unga og hafa alið þá upp í sameiningu enda eru dýrin miklar félagsverur.

Illa við að gefa dýrin

Líkt og áður segir verður rýmingarsala í versluninni á næstunni en Gunnar segist vera illa við að setja dýrin á afslátt og enn þá verra þykir honum að gefa þau. Hefur hann áhyggjur af því hvert dýrin fara og hvort viðkomandi sé þá tilbúinn fyrir ábyrgðina sem þeim fylgir. „Öll dýr eru tilfinningaverur og þetta á aldrei að vera einhver skyndiákvörðun vegna þess að dýrin voru í boði á fínu verði.“

Flest dýrin í versluninni eru fiskar og þar á eftir eru fuglar. Nefnir Gunnar einnig að nokkuð mörg degu-nagdýr séu í búðinni þar sem tvær systur eru nýbúnar að eiga unga sem komnir eru í sölu. 

Ef ekki tekst að koma dýrunum út ætlar Gunnar að taka þau með sér heim og láta í kjölfarið reyna á mátt netsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK