Grétar með aðra vél til Parísar

Grétar hefur tryggt sér leiguvél á leikinn í París. Ferðin …
Grétar hefur tryggt sér leiguvél á leikinn í París. Ferðin gengur þó einungis eftir ef fullbókað verður í vélina. Samsett mynd

Flugvélaævintýrið heldur áfram hjá Grétari Sigfinni Sigurðssyni, sem er kominn með staðfesta vél til Frakklands á leik Íslands á EM á sunnudag. Um dagsferð er að ræða en líklega verður farið frá Reykjavíkurvelli klukkan sjö á sunnudagsmorguninn og brottför frá París er klukkan þrjú aðfaranótt mánudags.

Vélin tekur 100 manns í sæti en farmiðinn fram og til baka kostar 154.900 krónur. Leigan á vélinni kostar því tæplega 15,5 milljónir króna.

Grétar ætlaði að bjóða upp á sambærilega ferð á leik Íslands og Englands í Nice í síðustu viku en það gekk að lokum ekki upp vegna seinagangs með greiðslur hjá þeim sem áttu bókað flug. Setið var um vélina sem átti að sjá um flugið og sneri eigandi hennar sér að öðrum leigutaka þegar greiðsla barst ekki á umsömdum tíma.

Frétt mbl.is: Gekk ekki vegna greiðslna

Vélin sem Grétar hefur núna tryggt sér er minni en sú sem til stóð að nota til Nice og opnaðist því möguleikinn á að nota Reykjavíkurflugvöll í stað þess að fara frá Keflavík. 

Mikill áhugi er á ferðinni og hafa nokkrir farþegar gengið frá greiðslu en frestur er til hádegis á morgun. Grétar bendir einnig á að hann sé með aðgang að nokkrum miðum á leikinn þar sem einhverjir sem hafa þurft að losa sig við miða hafi sett sig í samband við hann. Getur hann því haft milligöngu um miða fyrir einhverja sem náðu ekki að kaupa.

Þegar mbl. náði tali af Grétari var hann nýkominn úr viðtali við þýska sjónvarpið sem er að vinna heimildaþætti um árangur Íslands á EM. Samhliða því að fjalla um liðið hafa ýmsir aukavinklar verið skoðaðir og var meðal annars leitað til Grétars vegna áhugans á því að koma fólki út á leikinn.

Þeir sem hafa áhuga á ferðinni með Grétari geta sent honum tölvupóst á netfangið gretarsigfinnur@gmail.com eða skilaboð á Facebook.

Grét­ar er mörg­um fót­boltaunn­end­um kunn­­ur, en hann var varn­ar­maður hjá KR um ára­bil og leik­ur nú fyr­ir Stjörn­una.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK