Heilla ferðamenn með rauðglóandi hrauni

Ragnhildur Ágústsdóttir stendur ásamt manni sínum að Icelandic Lava Show …
Ragnhildur Ágústsdóttir stendur ásamt manni sínum að Icelandic Lava Show og vill búa til metnaðarfulla sýningu fyrir ferðamenn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Þetta verður veisla fyrir skynfærin. Gestirnir munu sjá rauðglóandi hraunið vella áfram, finna hitann sem stafar frá því, finna lyktina og heyra snarkið þegar það rennur inn í sýningarsalinn og yfir ís með tilheyrandi sjónarspili. Allt þetta verður svo magnað upp með hljóði og mynd sem gerir upplifunina alveg einstaka.“

Þannig lýsir Ragnhildur Ágústsdóttir hápunktinum í hraunsýningu Icelandic Lava Show. Um er að ræða sprotafyrirtæki sem tekur þátt í Startup Reykjavík í sumar. Að fyrirtækinu standa þau Ragnhildur og eiginmaður hennar, Júlíus Ingi Jónsson.

Þau hjónin eru stórhuga og vilja gera Icelandic Lava Show að einum af vinsælustu áfangastöðum ferðamanna sem heimsækja Ísland. „Við erum aðeins byrjuð að skoða húsnæði en okkur langar að hafa sýninguna á höfuðborgarsvæðinu, helst í námunda við miðbæinn eða í það minnsta nálægt einhverjum vinsælum áfangastað á höfuðborgarsvæðinu,“ útskýrir Ragnhildur.

Þessi teikning sýnir hvernig gestum yrði sýnt glóandi hraunið renna …
Þessi teikning sýnir hvernig gestum yrði sýnt glóandi hraunið renna yfir íshellur. Hljóð, lykt og hitinn sem geislar frá hrauninu auka á upplifunina.

Gæsahúð og lotning

Á sýningunni verður hægt að sjá með eigin augum rauðglóandi hraun. „Hraunrennslið verður miðpunktur sýningarinnar en utan um það verður stærri umgjörð þar sem við sjáum fyrir okkur að flétta saman kvikmyndagerð og jafnvel leikhúsi. Gestir fá að komast í tæri við þá krafta sem búa í iðrum jarðar og eiga hljóð og mynd að framkalla gæsahúð og lotningu. Fólk á að koma dolfallið út af sýningunni.“

Ragnhildur og Júlíus eru bæði viðskiptamenntuð með mikla reynslu úr atvinnulífinu, meðal annars af rekstri fyrirtækja, viðskipta- og vöruþróun og ráðgjöf. Fyrir þremur árum stofnaði Ragnhildur Bláan apríl, styrktarfélag barna með einhverfu, og er hún formaður félagsins, en þau Júlíus eiga tvo einhverfa syni. Synir þeirra hjóna eru mjög áhugasamir um tölvuleikinn Minecraft og sérstaklega hrifnir af hrauninu sem hægt er að finna í leiknum. Það var í gegnum þennan hraunáhuga að fjölskyldan rambaði á myndband á YouTube þar sem bandarískir vísindamenn bræða hraun og láta það renna yfir ís í tilraunaskyni. „Þetta myndband kveikti strax í okkur og við settum okkur fljótlega í samband við prófessorana tvo sem stóðu fyrir þessu verkefni. Það leiddi til þess að við fórum til Bandaríkjanna að hitta þá og reyndust þeir mjög áhugasamir um að hjálpa okkur að gera Icelandic Lava Show að veruleika.“

Lítil hætta á ferð

Þegar hér er komið sögu hljóta lesendur að vera farnir að spyrja sig hvernig má fara að því að sýna fólki rauðglóandi hraun inni í miðri Reykjavík, og það án þess að slys geti hlotist af. Ragnhildur segir ferlið ekki svo flókið og auðvelt að hafa góða stjórn á örygginu. „Það sem til þarf er í raun ekkert annað en basalt, bræðsluofn og talsvert af orku til að hita hraunið upp í um 1.200 °C. Margir hafa spurt okkur um losun óæskilegra lofttegunda þegar hraunið er brætt en það eru óþarfa áhyggjur því þær gastegundir sem iðulega losna við eldgos bindast ekki basalti. Þá stafar það miklum hita frá hrauninu að það yrði bara óþægilegt að fara of nærri því. Vitanlega verðum við með allan nauðsynlegan öryggisbúnað en getum samt hagað sýningunni þannig að fólk er að fá upplifunina beint í æð.“

Þarf 150 milljónir til

Og hvað munu svo herlegheitin kosta? „Við áætlum að það þurfi 120 til 150 milljónir til að koma sýningunni á laggirnar,“ segir Ragnhildur og bætir við að þetta sé ekki mjög há upphæð þegar hún er sett í samhengi við margar aðrar fjárfestingar í ferðaþjónustu. Upphæðin byggir á vandaðri viðskiptaáætlun. „Við tókum þátt í Gullegginu fyrr í ár og fengum mikið lof fyrir vel unna viðskiptaáætlun. Í umsögnum dómara kom meðal annars fram að við værum sennilega heldur að ofmeta kostnaðarhliðina og vanmeta tekjuhliðina.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK