Málavextir voru þeir að fjölmiðlanefnd barst þann 9. júní 2016 ábending þess efnis að í Morgunblaðinu þann sama dag væri að finna áfengisauglýsingu en blaðinu var dreift frítt á öll heimili á höfuðborgarsvæðinu.

Nánar tiltekið var vísað til auglýsingar frá Hamborgarafabrikkunni á bls. 79 í 133. tölublaði, 104. árgangs Morgunblaðsins. Auglýstur var bjór með vörumerkinu Víking, sem Vífilfell framleiðir, og birtar myndir af bjórflöskum merktum vörumerkjunum Víking Classic, Víking Stout og Víking Pils Organic.

Auglýsingin var frá Hamborgarafabrikkunni.
Auglýsingin var frá Hamborgarafabrikkunni. mbl.is/Styrmir Kári

Í 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla segir að viðskiptaboð fyrir áfengi séu óheimil. Þá eru gerðar þær kröfur að fullyrðingar sem fram koma í viðskiptaboðum og fjarkaupainnskotum fyrir óáfengar drykkjarvörur þurfi að vera hægt að færa sönnur á. Fjölmiðlanefnd óskaði eftir sjónarmiðum Árvakurs vegna málsins og bárust þau fjölmiðlanefnd með bréfi dags. 14. júní.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar var sú að auglýsingin teldist til viðskiptaboða fyrir áfengan bjór með yfir 2,25% áfengisinnihaldi og að með birtingu hennar hafi Árvakur brotið gegn fyrrnefndri 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla.

Í ljósi viðbragða Árvakurs, sem þegar í stað greip til aðgerða til að tryggja að frekari birting áfengisauglýsinga ætti sér ekki stað í Morgunblaðinu, og með vísan til þess að þetta er fyrsta brot Árvakurs gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla ákvað fjölmiðlanefnd að falla frá sektarákvörðun í málinu.

Hér má lesa ákvörðunina í heild.