Meiri landkynning en Eyjafjallajökull

Landsliðið hefur vakið meiri athygli á Íslandi en Eyjafjallajökull sjálfur.
Landsliðið hefur vakið meiri athygli á Íslandi en Eyjafjallajökull sjálfur. Samsett mynd

Magnaður árangur íslenska landsliðsins á EM í Frakklandi virðist skapa Íslandi meiri landkynningu en eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010 miðað við tölur Google Trends. Ef horft er til fjölda leitarfyrirspurna um Ísland í vikunni hefur áhugi á landinu 15- til 20-faldast frá því sem er vanalega og aldrei verið meiri.

Á þetta bendir greiningardeild Arion í nýjustu Markaðspunktum sínum. Þá hefur aldrei verið leitað jafn oft að „What to do in Iceland“ og í þessari viku og meira að segja hefur leit að norðurljósum og Íslandi aukist talsvert.

Mbl. hefur einnig bent á þessar auknu vinsældir landsins en í Markaðspunktum bendir greiningardeildin á að þessi landkynning kunni að koma á hentugum tíma þar sem krónan er að styrkjast, einkum gagnvart bresku pundi. Þó megi einnig velta því upp hvort hér sé ávísun á áframhaldandi hraða fjölgun ferðamanna sem væri ekki endilega af hinu góða.

Leit að orðinu Reykjavík hefur stóraukist á Google.
Leit að orðinu Reykjavík hefur stóraukist á Google. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Hvað er hægt að gera á Íslandi?“

Í þessari viku hefur leit að Íslandi í flokknum ferðalög rokið upp í Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum, en meira en helmingur erlendra ferðamanna árið 2015 var frá þessum löndum. Ísland hefur aldrei verið vinsælla í þessum flokki í Bretlandi og Þýskalandi, en í Bandaríkjunum á vikan sem Eyjafjallajökull hóf að gjósa enn metið.

Þá hefur leit að helstu ferðamannastöðunum á Íslandi einnig aukist. Reykjavík sker sig úr og hefur aldrei verið vinsælli á Google. Bláa lónið og Gullni hringurinn fylgja nokkuð á eftir og hafa ekki náð fyrri toppum, en þó má sjá að leitarfyrirspurnir um þá staði hafa sjaldan verið fleiri en í þessari viku.

Þar að auki hefur aldrei verið leitað jafn oft að því hvað sé hægt að gera á Íslandi, en greiningardeildin hefur tekið eftir að sú leit eykst mikið með auknum ferðamannstraumi til landsins.

Vísbendingar eru um að við séum að nálgast þolmörkin og …
Vísbendingar eru um að við séum að nálgast þolmörkin og því má spyrja hvort landkynningin sé af hinu góða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nálgumst þolmörkin

Í ferðaþjónustuúttekt greiningardeildar Arion í september sl. var því velt upp hvort ferðaþjónustan á Íslandi væri komin að þolmörkum.

Þó að erfitt sé að fullyrða með skýrum hætti að svo sé er nokkuð ljóst að hún er komin nálægt þeim, segir greiningardeildin.

Það að nýting hótelherbergja sé í hámarki víða um landið, bæði yfir háannatímann sem og allan ársins hring, auk þess sem atvinnuleysi sé nánast horfið, séu vísbendingar um það.

„Ef það verður tilfellið að landkynningin sem hlýst af árangri landsliðsins muni hraða fjölgun ferðamanna verður spurningin um hvort þessi hraði vöxtur sé í raun af hinu góða enn réttmætari en áður,“ segir greiningardeild Arion.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK