Koma heim með tvo milljarða

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ. mbl.is/RAX

Knattspyrnusamband Íslands fékk sex milljónir evra, eða um átta hundruð milljónir íslenskra króna, fyrir árangurinn á EM en áður hafði sambandið fengið 1.100 milljónir króna fyrir að komast á mótið. Formaður KSÍ segir þetta vera mikla innspýtingu í íslenska knattspyrnuhreyfingu.

Í ársreikningi KSÍ er gert ráð fyrir átta milljóna evra styrkjum frá UEFA vegna Evrópumótsins í knattspyrnu en eftir góðan árangur liðsins liggur fyrir að sex milljónir evra bætast við og er því um 75% tekjuaukningu frá fyrri áætlun að ræða. Heildarágóðinn af mótinu nemur um 1,9 milljörðum króna.

Renni í íslenska knattspyrnu

Að sögn Geirs Þorsteinssonar, formanns KSÍ, er ekki búið að taka ákvörðun um ráðstöfun þessara viðbótarfjármuna en hefur hann þó hugmyndir um að láta peningana renna til knattspyrnulegrar starfsemi og að hluta til aðildarfélaga sambandsins sem eru samkvæmt heimasíðu KSÍ alls 154 talsins.

Þegar hafði verið ákveðið að láta 300 milljónir af 1.100 milljónunum sem upphaflega var gert ráð fyrir renna til aðildarfélaga og kemur þannig til greina að hækka þá upphæð. Geir segir að þetta muni liggja betur fyrir um næstu mánaðamót.

Greiðslur til leikmanna hækkuðu þegar þeir komust upp úr riðlinum.
Greiðslur til leikmanna hækkuðu þegar þeir komust upp úr riðlinum. AFP

Svipað og á Norðurlöndum

Ljóst er að stór hluti rennur þó beint til leikmanna og þjálfara. Áætlaður kostnaður KSÍ við EM var um sex hundruð milljónir króna þegar einungis var gert ráð fyrir riðlakeppninni en inni í því eru afreksgreiðslur til leikmanna og þjálfara. Þeir munu fá aukinn hluta af viðbótarfjármununum auk þess sem almennur kostnaður við hótel, miða og flug jókst eftir því sem liðið komst lengra. Geir segir að ekki sé búið að taka þetta saman en bendir á að engu hafi verið til sparað fyrir liðið í Frakklandi.

Spurður hvort árangurstengdu greiðslurnar hafi hækkað eftir því sem liðið komst lengra svarar Geir játandi og segir strákana njóta aukinnar hlutdeildar af því. 

Hann segir greiðslurnar hins vegar vera trúnaðarmál og er ekki tilbúinn að gefa upp fjárhæð þeirra. Geir ráðfærði sig við kollega sína á Norðurlöndum og bendir sérstaklega á Svíþjóð og Danmörku sem hafa verið með lið á þessum mótum. Segir hann íslenska greiðslumódelið fyrir leikmenn vera mjög svipað og í þeim löndum.

Samkvæmt Wikipedia fá leikmenn í landsliði Danmerkur greitt fyrir leiki á HM eða EM samkvæmt samkomulagi sem gert var árið 1998. Samkvæmt því eiga þeir rétt á um helmingi af tekjum danska knattspyrnusambandsins af þessum stórmótum auk þess að fá um 65 prósent af öðrum tekjum sem sambandið hefur af sölu á varningi og leyfum sem tengjast mótunum. 

Samkvæmt mjög grófum útreikningum í samræmi við þetta má gera ráð fyrir að helmingurinn af 1,9 milljörðum, alls 950 milljónir, renni til leikmanna og þjálfara sem eru 25 talsins. Sé því deilt niður jafngildir það 38 milljónum króna á hvern einstakling eða um 7,6 milljónum króna á hvern leik sem spilaður var.

Framtíð Laugardalsvallar er í hagkvæmnisathugun.
Framtíð Laugardalsvallar er í hagkvæmnisathugun. mbl.is/

Fer ekki í Laugardalsvöll

Spurður hvort fjármunirnir gætu runnið í Laugardalsvöll að einhverju leyti svarar Geir neitandi og segir að þetta muni fyrst og fremst fara í knattspyrnutengda starfsemi. Völlurinn sé sérstakt verkefni sem er í formlegri hagkvæmnisathugun hjá þýska fyrirtækinu Lagardére og verður skýrslu um það skilað í ágúst.

Hann segir að landsleikir einir og sér reki ekki mannvirki og bíður KSÍ niðurstaðna úr fyrrnefndri hagkvæmnisathugun til að skoða hvernig mannvirki sé skynsamlegt að reka. Markmiðið sé að byggja upp völl sem getur staðið undir sér og að einhver tengd starfsemi verði til staðar. 

Nánast þrefaldar tekjur

Knattspyrnusamband Íslands hefur aldrei haft jafnmikið fjármagn milli handanna og Geir bendir á að 1.100 milljónirnar sem upphaflega var gert ráð fyrir hafi tvöfaldað rekstrartekjur sambandsins. Með 800 milljónum til viðbótar eru þær nánast þrefaldar.

Sam­kvæmt áætlun ársins 2016 hjá KSÍ, sem unnin var út frá fyrri forsendum, er gert ráð fyrir 622 milljóna króna hagnaði á árinu. Til samanburðar nam hagnaður síðasta árs 157 millj­ón­um króna.

„Þetta verður mikil innspýting í íslenska knattspyrnuhreyfingu og í grasrótina. Ég vona að félögin muni njóta þess ríkulega,“ segir Geir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK