Töluverð lækkun á verðbólguspá

Greining Íslandsbanka gerir nú ráð fyrir að verðbólga verði 2,1% …
Greining Íslandsbanka gerir nú ráð fyrir að verðbólga verði 2,1% í árslok en fyrir mánuði var gert ráð fyrir 2,6% verðbólgu. Spáin hefur þannig færst undir verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Greining Íslandsbanka hefur lækkað verðbólguspá sína umtalsvert og gerir nú ráð fyrir að verðbólga verði undir markmiði Seðlabankans fram undir lok næsta árs. Talið er að verðbólgan muni hins vegar aukast hratt á árinu 2018 og fara yfir efri þolmörk í lok þess árs. 

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs verði óbreytt í júlí frá fyrri mánuði. Á sama tíma í fyrra hækkaði vísitalan um tæp 0,2% og hjaðnar því verðbólga samkvæmt spánni úr 1,6% í 1,5%. Hagstofan birtir júnímælingu vísitölunnar 22. júlí næstkomandi.

0,5% lækkun á spánni

Í nýjustu spá Íslandsbanka er gert ráð fyrir að verðbólga aukist nokkuð undir lok ársins en þó ekki meira en svo að hún verður áfram undir 2,5% markmiði Seðlabankans. Er nú spáð 2,1% verðbólgu í árslok, sem er líkt og áður segir talsvert minni verðbólga en reiknað var með fyrir mánuði. Þá gerði Íslandbanki ráð fyrir 2,6% verðbólgu í desember.

Kemur lækkunin bæði til vegna þess að vísitala neysluverðs hækkaði mun minna í júní en gert hafði verið ráð fyrir auk þess sem gengi krónunnar hefur styrkst hraðar en gert hafði verið ráð fyrir.

Greining Íslandsbanka hefur lækkað verðbólguspá sína umtalsvert.
Greining Íslandsbanka hefur lækkað verðbólguspá sína umtalsvert. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áframhaldandi styrking

Gengi krónunnar er einn stærsti áhrifaþáttur verðbólguþróunar hérlendis og hefur styrking krónunnar undanfarið ár haft mikið að segja um hversu hófleg verðbólgan hefur verið á því tímabili þrátt fyrir hraða hækkun launa og annan innlendan kostnaðarþrýsting.

Líkt og kom fram í þjóðhagsspá Íslandsbanka sem birt var í byrjun júní sl. er talið að krónan muni styrkjast enn um sinn.  Gengishækkun krónu mun að mati Íslandsbanka hvíla á áframhaldandi innflæði gjaldeyris frá utanríkisviðskiptum, en gjaldeyriskaup Seðlabankans og útflæði vegna rýmri fjárfestingarheimilda erlendis fyrir innlenda aðila halda væntanlega aftur af styrkingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK