Flytja út gas til Mið-Austurlanda

Borhola í Tioga í Norður-Dakótu.
Borhola í Tioga í Norður-Dakótu. AFP

Bandarískir gasframleiðendur eru farnir í auknum mæli að flytja út gas til Mið-Austurlanda. Orkufyrirtækið Cheniere Engery hefur flutt tvo farma af fljótandi gasi frá Louisiana í Bandaríkjunum til Kúveit og Dubai á undanförnum mánuðum til þess að mæta hratt vaxandi eftirspurn á heimsmörkuðum eftir orku.

Fjallað er um málið á vef Financial Times.

Orkubylting vestanhafs

Vinnsla á olíu og jarðgasi hefur tekið kipp í Bandaríkjunum á síðasta áratug, þökk sé nýrri beitingu gamallar aðferðar sem felst í vökvabroti, sem oftast er kallað „fracking“.

Í henni felst að vatni, blönduðu með sandi og ýmsum efnasamböndum, er sprautað í borholur sem liggja lárrétt djúpt í jörðu. Þannig eru framkallaðar sprungur í jarðlögum, einkum leirsteini, en spurngurnar greiða leiðina að ríkulegum auðlindum sem ekki var hægt að ná með hefðbundnum aðferðum.

Um er að ræða mikla byltingu vestanhafs sem hefur gert það að verkum að Bandaríkin nálgast nú það að vera sjálfum sér næg um orkugjafa. Hefur hún einnig leitt til þess að bandarískir gasframleiðendur eru í ríkari mæli farnir að flytja út gas, til dæmis til Mið-Austurlanda. Þar hefur eftirspurn eftir orku aukist gríðarlega á undanförnum árum.

Ekki er nema um áratugur frá því að talið var að Bandaríkjamenn yrðu varanlega háðir innflutningi á gasi. Margt hefur breyst í millitíðinni, eins og áður sagði.

Skiptar skoðanir eru um það hversu gott fyrir umhverfið vökvabrot …
Skiptar skoðanir eru um það hversu gott fyrir umhverfið vökvabrot er. AFP

Rykið á enn eftir að setjast

Ted Michael, greinandi hjá Genscape, segir að miklar breytingar eigi nú sér stað þegar kemur að sjóflutningi á gasi um heiminn.

„Eldra skipulaginu hefur verið kollvarpað og við höfum ekki séð rykið setjast strax,“ segir hann.

Gasflutningsskipin lögðu af stað frá Sabine Pass LNG-stöðinni í Louisiana fyrr á árinu. Það fyrsta fór í febrúarmánuði. Farmar hafa þegar verið sendir til Argentínu, Chile, Brasilíu, Indlands og Portúgals, auk Dubai og Kúveit.

Stöðin í Sabine Pass var upphaflega gerð fyrir innflutning á gasi, en hefur nú verið breytt í útflutningsstöð. Það sama á við fleiri bandarískar stöðvar sem verða teknar í gagnið á næstunni.

Skortir fé til fjárfestingar

Mörg ríki í Mið-Austurlöndum eiga stórar gaslindir, en þau hefur hins vegar skort fé til þess að geta notað þær til þess að framleiða orku. Hafa þau því þurft að reiða sig á innflutning, að því er segir í umfjöllun Financial Times.

Samhliða aukinni eftirspurn eftir orku hefur framboð á fljótandi gas aukist, en auk Bandaríkjamanna hafa Ástralar jafnframt sett upp LNG-útflutningsstöðvar.

Stórfyrirtæki á borð við Chevron, Exxon og Shell hafa fjárfest fyrir milljarða dala í slíkum útflutningsstöðvum í Ástralíu.

AFP

Verðið fer lækkandi

Aukið framboð hefur þrýst verði á fljótandi gasi niður, sem hefur haft það í för með sér að vinsældir orkugjafans hafa aukist.

Í Kúveit þrefaldaðist innflutningur á fljótandi gasi úr einni milljón tonna árið 2012 í 3,04 milljónir í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Middle East Economic Survey. Egyptar og Jórdanir fluttu í fyrra í fyrsta sinn meira inn af gasinu en út.

Katar er stærsti útflytjandi heims á fljótandi gasi, en talið er að á næstu árum taki Ástralar og mögulega Bandaríkjamenn fram úr þeim.

Mið-Austurlönd verða mikilvægur markaður

Alþjóðaorkumálastofnun spáir því jafnframt að eftirspurn eftir gasi í Mið-Austurlöndunum muni tvöfaldast fyrir árið 2040. Svæðið gæti því orðið mikilvægur markaður fyrir bandaríska gasframleiðendur.

Jason Bordoff, sérfræðingur hjá Kolumbía-háskólanum, segir að í Mið-Austurlöndunum sé gríðarlegur áhugi fyrir því að auka gasbirgðir og á sama tíma megi finna ódýrasta orkugjafa heims í Bandaríkjunum.

Flytja enn inn olíu

Þó svo að Bandaríkjamenn flytji nú út gas til Mið-Austurlanda, þá flytja þeir enn inn olíu frá ríkjunum þar. Bandaríkjmenn hafa flutt inn 1,6 milljónir tunna af hráolíu frá svæðinu á dag það sem af er ári, samanborið við 2,4 milljónir árið 2003.

Bandaríkjamenn voru síðast nettóútflytjendur á gasi árið 1957.

Shell hefur fjárfest í útflutningsstöðvum í Ástralíu.
Shell hefur fjárfest í útflutningsstöðvum í Ástralíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK